Innlent

Skiptir út innbúinu fyrir jólaskraut: „Sumum finnst þetta vera athyglissýki“

Hrund Þórsdóttir skrifar
Margir hafa gaman af jólaskrauti en fáir hafa líklega tærnar þar sem Hjördís Guðmundsdóttir hefur hælana. Eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði kíkti fréttamaður Stöðvar 2 í heimsókn til hennar og sjón er sögu ríkari.

Hjördís býr í fjölbýli í Grafarvogi en hefur sem betur fer góða geymslu því fyrir jólin er innbúinu nánast öllu skipt út fyrir jólaskraut.

Áttu eitthvert uppáhaldsjólaskraut?

„Já, það er jólasveinn sem barnabarnið mitt gaf mér. Hann var tveggja ára og það er svo fyndið að segja frá því að hann er jólabarn, á afmæli á aðfangadag,“ segir Hjördís og sýnir fréttamanni jólasveininn.

Hjördís safnar gömlu íslensku jólasveinunum en jólamunir hennar eru af ýmsum toga. Meðal þeirra eru til dæmis mörg hreindýr.

„Mér þykir mjög vænt um hreindýr,“ segir hún. „Ég ólst upp þar sem er mikið af hreindýrum, austur á héraði og ég elska þessi dýr. Mér finnst þau æðisleg.“

Herlegheitin kosta háar fjárhæðir, bæði í innkaupum og rafmagnskostnaði, en Hjördís kveðst ekkert sjá eftir þeim. Aðspurð um viðbrögð fólks við skreytingunum segir hún þau afar mismunandi.

„Sumum finnst þetta vera athyglissýki en aðrir eru bara ánægðir með þetta,“ segir hún.

Hjá Hjördísi býr dóttir hennar, Dóra Bryndís Hjördísardóttir, og hún er hæstánægð með skreytigleði móður sinnar.

„Þetta er náttúrulega fyrst og fremst listaverk hjá henni,“ segir Dóra Bryndís. „Þetta er allt svo flott og vel gert og ég hef hvergi annars staðar séð hús sem er svona mikið skreytt og með svona mikilli ást.“

Hjördís útbýr allar skreytingarnar sjálf og segir að enn vanti heilmargt í safnið.

„Til dæmis flottu húsin sem eru með blikkandi ljósum innan í, þau finnst mér æðisleg,“ segir Hjördís.

Er það þá framtíðarverkefnið, að byggja upp jólaþorp líka?

„Já, það er það, en þá þarf ég aðeins stærri íbúð,“ segir jólabarnið Hjördís að lokum hlæjandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×