Innlent

Skilafrestur of knappur

Linda Blöndal skrifar
Margir lögðu leið sína í búðir í dag og raðir mynduðust við hinar stærri þar sem fólk beið eftir því að skila eða skipta jólagjöfum. Engar samræmdar reglur eru til um hver réttur kaupandans er eða hvernig réttindi og skyldur eru á milli kaupanda og seljanda. Samtök verslunar og þjónustu taka heldur ekki saman hvert umfang skilanna er eftir jólin.

Sú regla sem virðist algengust er að skilafrestur renni út 31.desember. Það er tæp vika núna sem fólk hefur ef miðað er við virka daga. Fólk sem fréttastofa Stöðvar tvö talaði við í dag í Kringlunni var illa meðvitað um skilarétt og fleira tengt skilum og skiptum á vörum.

Hildigunnur Hafsteinsdóttir, lögræðingur hjá samtökunum sagði í fréttum Stöðvar tvö í kvöld að ekki séu allir í sömu aðstöðu til að koma fljótt aftur í búðina til að skipta jólagjöfum, til dæmis þeir sem búi úti á landi. „Við erum hrædd um að  þegar skilafresturinn er svona tæpur, að þá brenni sumir inni með gjafir. Við hefðum viljað sjá þetta um miðjan janúar, alla vega”.

Engin lög eða reglugerðir eru um skil á vörum nema þær séu hreinlega gallaðar svo hver og ein verslun setur sínar eigin reglur.

„Við hefðum viljað sjá samræmdar skilareglur og samræmdan skilafrest, eins og hvenær megi nota inneignarnótur og hversu lengi þær eiga að gilda því það er líka títt að gjafabréf og inneignanótur renni út”, segir Hildigunnur. Hún segir að eitt ár sé ekki langur tími. „Ár er rosalega fljótt að líða eftir á að hyggja, þótt manni finnist það kannski langt á nýrri inneignarnótu”.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×