Gagnrýni

Skemmtilegt og leiðinlegt

Jónas Sen skrifar
Bergrún Snæbjörnsdóttir átti eitt verkanna á tónleikunum.
Bergrún Snæbjörnsdóttir átti eitt verkanna á tónleikunum. vísir/GVA
Tónlist:

Tectonics – hljómsveitartónleikar

Sinfóníuhljómsveit Íslands, Ilan Volkov stjórnaði

Í Hörpu föstudaginn 11. apríl.



Ég hef heyrt fallega tónlist eftir Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur. Ef minnið svíkur mig ekki hefur það þó eingöngu verið á tónleikum kammerhópsins Nordic Affect. Þeir tónleikar eru yfirleitt í litlum sal og þá er ekki annað hægt en að sitja nálægt tónlistarfólkinu. Tónlist Maríu er lágstemmd, en það er í henni andrúmsloft sem er heillandi. Þessi sjarmi hefur skilað sér í nálægðinni. Það er einhver einlægni við hana, eitthvað sem er skemmtilega persónulegt.



Ég var ekki eins sannfærður á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Tectonics á föstudagskvöldið. Þar flutti hljómsveitin undir stjórn Ilans Volkov tónsmíð eftir Maríu að nafni 1001 – for bowed metal. Jú, hugmyndirnar voru góðar. Stefin og hljómarnir voru seiðandi í einfaldleika sínum. Upphafið var í svarta myrkri og það eina sem sást voru lítil ljós á strengjabogum sem voru notaðir til að framkalla hljóð úr ýmiss konar slagverki. En hápunkturinn, þar sem viðkvæm laglína var í burðarhlutverki, drukknaði í of miklum gný. Umgjörðin var of stór. Það vantaði eitthvað.



Verkið var flutt í Eldborginni. Hið óvanalega við tónleikana var að þeir voru haldnir í tveimur sölum, líka í Norðurljósum. Þar var næst á dagskrá Esoteric Mass eftir Bergrúnu Snæbjörnsdóttur. Hún er í þann mund að ljúka tónsmíðanámi í Listaháskólanum. Tónlistin hennar byggðist á því að blásturshljóðfæraleikarar röðuðu sér í hring og spiluðu eftir mynstri sem var á sífelldri hreyfingu. Mynstrinu var varpað á gólfið. Fyrst heyrði maður aðallega endurtekna tóna, varfærnislega spilaða. En svo óx verkið upp í hápunkt sem var skemmtilega ærslafenginn og kaótískur. Hann samsvaraði sér prýðilega við hógvært upphafið og endinn. Þetta voru flottar andstæður.



Langtímarannsókn # 2 eftir Davíð Brynjar Franzson, einnig í Norðurljósunum, kom ekki eins vel út. Þar dreifðu strengjaleikarar sér um salinn og nudduðu bogunum á brúnir hljóðfæranna – ekki á strengina. Áheyrendum var á sama tíma sagt að ganga um salinn á sokkaleistunum, aðallega til að geta gengið um í þögn til að heyra mismunandi hliðar hljóðheimsins eftir því hvar fólkið var statt. Gerningurinn var athyglisverður en ívið langdreginn. Heil eilífð leið og bar ekkert til tíðinda.



Síðasta verkið á dagskránni var í Eldborginni. Það var eftir tónlistarhóp sem heitir Lemur. Hljómsveitinni var skipt upp í litlar einingar sem voru staðsettar víðs vegar um salinn. Salurinn sjálfur var líka í mismunandi stillingum. Eins og kunnugt er er hægt að breyta endurómuninni þar talsvert eftir því hvernig tónlist er verið að flytja. Salurinn lék því stórt hlutverk í tónsmíðinni. Allt hefði það verið gott og blessað ef tónlistin hefði ekki verið svona leiðinleg. Hún samanstóð af einstaklega fráhrindandi hljómasamsetningum og endurtekningum. Það skipti engu máli þótt tónarnir kæmu úr hinni eða þessari áttinni, í mismunandi bergmáli. Þeir voru jafn þreytandi fyrir því. Hér hefði minna verið meira.





 Niðurstaða: Sumt var athyglisvert og skemmtilegt, en fleira missti marks.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×