Innlent

Skelfileg tíðindi af Hafró og hættuleg staða

Heimir Már Pétursson skrifar
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri LÍÚ.
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri LÍÚ. VÍSIR/ARNÞÓR
Framkvæmdastjóri LÍÚ segir skelfileg tíðindi að Hafrannsóknarstofnun hafi ekki fjármuni til að stunda rannsóknir á helstu auðlind þjóðarinnar. Stofnunin gat ekki sent skip sín í árlegt haustrall til að rannsaka verðmætustu fiskistofna og til greina kemur að leggja öðru af rannsóknarskipum hennar.

Hafrannsóknarstofnun er ágætlega skipum búinn með Árna Friðriksson og Bjarna Sæmundsson. En Jóhann Sigurjónsson forstjóri stofnunarinnar hefur sagt í fréttum okkar að til greina komi að leggja honum ef fjárhagur hafrannsóknarstofnunar verði ekki tryggður.

Jóhann segir að rekstrarfé stofnunarinnar hafi minnkað um 700 milljónir króna frá síðasta ári og ef framlög verði ekki aukin umfram það sem fjárlagafrumvarp næsta árs geri ráð fyrir þurfi væntanlega að leggja Bjarna Sæmundssyni.

„Þetta eru skelfileg tíðindi fyrir sjávarútvegsþjóðina Ísland og í rauninni stórhættulegt mál að okkar viti vegna þess að þetta leiðir ekki til annars en þess að þau gögn sem við byggjum allt okkar á hvað varðar veiðar eru ekki nægjanleg. Duga ekki til að veita okkur ráðgjöf. Það kann að leiða til eins að tvennu, að við náum ekki að fullnýta þá stofna sem við höfum aðgang að nú eða það sem verra er, að við ofnýtum þá,“ segir Kolbeinn Árnason framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna.

Þá geti þetta ástand haft slæm áhrif á markaðassetningu á íslensku sjávarfangi, þar sem kröfur um sjálfbærni,  rekjanleika og þekkingu á ástandi stofna skipti miklu.

Í haust voru fiskiskip fengin í togararallið og þeim greitt með aflaheimildum fyrir milligöngu sjávarútvegsráðuneytisins.

„Þetta er engin lausn. Við verðum að tryggja það að hafrannsóknum sé sinnt hér á skipulegan hátt. Vandaðan hátt þar sem horft er til framtíðar,“ segir Kolbeinn.

Útgerðin sé vissulega til í að hjálpa til við rannsóknir og búi yfir þekkingu og tækjabúnaði til þess.

„En það þarf að vera eitthvað stórt plan til. Það þarf að ver eitthvað skipulag og það að bjarga þessu ári frá ári með þessum hætti, sem við teljum í ofanálag að sé óhagkvæmur, er eitthvað sem ekki er ásættanlegt til lengri tíma,“ segir Kolbeinn Árnason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×