Viðskipti innlent

Skattleysismörk lækkuðu greiðslur MP banka um 78 prósent

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Skattleysismörkin sem sett voru í lög um bankaskatt lækkuðu greiðslur MP banka vegna skattsins um 78 prósent. Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, segir að færa hefði mátt rök fyrir því að MP banki greiddi engan bankaskatt þar sem bankinn hafi ekki verið meðal þeirra sem ollu ríkissjóði tjóni í hruninu.

Fyrir aðra umræðu fjárlagafrumvarpsins í desember lagði meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar fram breytingar á frumvarpi um tekjuaðgerðir fjárlaga og sett var inn ákvæði um sérstök skattleysismörk bankskatts sem nema 50 milljörðum króna. Samhliða því var skatturinn hækkaður úr úr 0,041 prósenti í 0,376 prósent, en hann leggst á heildarskuldir banka og fjármálafyrirtækja í slitameðferð.

Skattleysismörkin koma sér afar vel fyrir MP banka. Á vefsíðunni Andríki er velt vöngum um hvort breytingin kunni að vera tilviljun í ljósi þess að einn af framkvæmdastjórum bankans er Sigurður Hannesson, ráðgjafi og vinur forsætisráðherra og formaður nefndar um höfuðstólslækkun verðtryggðra lána, en bankaskatturinn á einmitt að fjármagna tillögur nefndarinnar um skuldaleiðréttingu.

Hefði þurft að greiða 241 milljón króna án breytingar

Ef MP banki þyrfti að greiða 0,376% af skuldum sínum án 50 milljarða skattleysismarkanna þyrfti bankinn að greiða 241 milljón króna á ári í bankaskatt. Vegna skattleysismarkanna lækka þessar greiðslur hins vegar í 53 milljónir króna eða um 78 prósent. Útreikningar fréttastofu miðast við síðasta birta ársreikning MP banka fyrir árið 2012.

Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar, sagði í samtali við fréttastofu að meirihluti nefndarinnar hafi lagt til þessa breytingu á frumvarpinu eftir ábendingar frá sérfræðingum um að bankaskatturinn í óbreyttri mynd væri of þungbær fyrir smærri fjármálafyrirtæki. Hann sagði að þessi breyting hefði átt rætur sínar í fjármálaráðuneytinu.

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokks og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, sagði að í október hefðu komið fram athugasemdir um að skatturinn myndi að óbreyttu leggjast mjög þungt á smærri fjármálafyrirtæki. Því hafi þurft að setja inn ákvæði um skattleysismörkin.

Frosti vísaði því á bug að breytingin hefði verið klæðskerasniðin fyrir MP banka en sagði að í raun hefði mátt færa rök fyrir því að MP banki greiddi engan bankaskatt þar sem bankinn hafi ekki verið meðal þeirra sem ollu ríkissjóði tjóni í bankahruninu. Sjá viðtal við Frosta í meðfylgjandi myndskeiði. 







Fleiri fréttir

Sjá meira


×