Innlent

Skaðabótamál MR: „Mjög sáttur við niðurstöðuna“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
"Ég er ekki enn búinn að jafna mig, núna sex árum seinna,“ segir Ólafur Hrafn Steinarsson.
"Ég er ekki enn búinn að jafna mig, núna sex árum seinna,“ segir Ólafur Hrafn Steinarsson. vísir/aðsend/teitur
„Ég er mjög sáttur með niðurstöðuna, þetta tók sinn tíma,“ segir Ólafur Hrafn Steinarsson, fyrrum nemandi Menntaskólans í Reykjavík. Í dag var ríkið fyrir hönd Menntaskólans í Reykjavík úrskurðað skaðabótaskylt af Héraðsdómi Reykjavíkur, en Ólafur fór í mál við skólann eftir að hann ökklabrotnaði í marsmánuði 2008.

Skaðabætur hafa ekki verið ákvarðaðar, en skólinn var í dag dæmdur til að greiða málskostnað Ólafs upp á um 1,4 milljónir króna.

Mistök og gáleysi íþróttakennarans

Slysið varð þegar Ólafur „rann til á hálku eða misfellu, féll í jörðina og slasaðist illa á hægri fæti.“ Var hann fluttur á slysadeild Landspítalans þar sem kom í ljós að hægri ökklinn væri illa afmyndaður og sýndu röntgenrannsókn brot á sperrilegg og að nemandinn hefði slitið liðbönd í hægri ökkla við fallið. „Ég er ekki enn búinn að jafna mig, núna sex árum seinna,“ segir Ólafur.

Í niðurstöðu dómsins segir að slysið sé fyrst og fremst rakið til þess sem telja verður „mistök íþróttakennarans og gáleysi hans, að ákveða eftirlitslausan knattspyrnuleik nemenda þar sem hált var og holótt“. Kennaranum hafi átt að gera sér grein fyrir slysahættunni sem þessum aðstæðum fylgdi.

Héraðsdómur segir ríkið bera eftir almennum reglum um vinnuveitendaábyrgð skaðabótaábyrgð á því tjóni sem hlaust af þessum mistökum og gáleysi íþróttakennarans í Menntaskólanum í Reykjavík, að því er segir í dómnum.


Tengdar fréttir

Ríkið skaðabótaskylt vegna slyss í leikfimitíma í MR

Íslenska ríkið hefur verið dæmt skaðabótaskylt vegna slyss sem átti sér stað í leikfimitíma í MR árið 2008 þegar nemandi við skólann ökklabrotnaði illa í fótboltaleik í Hljómskálagarðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×