„Við hjá félaginu erum afskaplega glöð með að þetta fékk svona skjóta og góða afgreiðslu," segir Berglind Guðmundsdóttir, formaður MS félagsins. Ákveðið hefur verið að ríkið taki þátt í greiðslukostnaði vegna lyfsins Gilenya. Gilenya-meðferð verður veitt þeim MS sjúklingum sem hafa nú þegar reynt MS-lyfið Tysabri og orðið að hætta notkun þess.
„Það voru margir farnir að bíða, sérstaklega fólkið sem var hætt á Tysabri fyrir sex mánuðum," segir Berglind. Hún bendir á að fólk hafi verið farið að finna fyrir því að sjúkdómurinn væri að versna og farið að nýta sér steragjafir, sem er tímabundið úrræði.
Berglind segir að þessi ákvörðun um að ríkið taki þátt í kostnaðinum við Gilenya skipti fólkið miklu máli. „Það gerir það því fólk var ekki bara farið að versna líkamlega heldur var þetta líka mikið álag andlega," segir Berglind.
Greint var frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 og á Vísi hér á dögunum að flöskuháls í stjórnsýslunni hefur hingað til verið þess valdandi að tugir MS-sjúklinga hafa ekki fengið Gilenya lifið, sem hindra framvindu sjúkdómsins. Dauðsfall af notkun Tysabri hafi orðið til þess að hjólin fóru að snúast.
Sjúklingar gleðjast yfir ákvörðun yfirvalda
Jón Hákon Halldórsson skrifar
