Skoðun

Sjúddírarírei

Ingunn Björnsdóttir skrifar
Landlæknir og forstjóri Lyfjastofnunar ásökuðu á dögunum virðulegan lyfsala á Vesturlandi um rangfærslur. Í sama pistli frá þessum ágætu yfirmönnum kom fram að lyfið tramadól væri eftirritunarskylt í Svíþjóð. Eins og sjá má á innlögðum hlekkjunum hér og á eftir, er þetta ekki allskostar rétt. Rétt er að lyfið er nú í flokki með «narkotika», sem á ástkæra ylhýra gæti útlagst sem «ávana- og fíknilyf». Um leið og það var fært yfir í þann flokk var það sett á undantekningarákvæði frá þeim ákvæðum sem almennt gilda um flokkinn í Svíþjóð. Einu hömlurnar sem eru á ávísun þess eru að ávísa skal lyfinu á sérstöku lyfseðilseyðublaði, sem er ögn frábrugðið venjulegu sænsku lyfseðilseyðublaði. Þarna varð yfirmönnunum á í messunni, og mætti um það nota orðið …. sjúddírarírei, sjúddírarírei …..

Þessi lítillegi misskilningur yfirmannanna væri samt ef til vill ekki efni í pistil, ef hann hefði ekki valdið því að á Íslandi var sett eftirritunarskylda á tramadól. Íslendingar lærðu það vonandi af hruninu að við sem þjóð erum ekki best í heimi, ekki fæddir snillingar sem aðrir ættu að læra sem allra mest af. Þess vegna er ekki beint ástæða fyrir okkur að feta slóð fyrstir þjóða. Það er samt einmitt það sem Ísland gerir í tramadólmálinu, ef litið er til þeirra landa sem við berum okkur helst saman við, þ.e. Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar.

Í greinargerð yfirmannanna tveggja koma fram fleiri rök fyrir ákvörðuninni um að gera lyfið eftirritunarskylt. Ekki verður þó séð að eftirritunarskylda, einkum ef hún er eina aðgerðin, sé líkleg til að breyta miklu varðandi neinn þeirra punkta. Eins og kemur fram í frétt í Morgunblaðinu 1. október, snýr eftirlit Lyfjastofnunar með eftirritunarskyldum lyfjum einkum að formsatriðum eins og hvort réttur sjúklingur kvitti fyrir móttöku og hvort apótekið hafi staðið rétt að afgreiðslunni, en ekki að því hvort einhverjir læknar séu óhóflega ávísanaglaðir. Eftirlit með ávísanagleði lækna liggur nefnilega annars staðar, - hjá landlækni.  

Fyrir rúmum 15 árum varði ég doktorsritgerð, sem meðal annars fjallaði um ávísanir íslenskra lækna á sýklalyf. Ég fól börnum mínum að gera tillögur að forsíðumynd, til að þeim fyndist þau eiga eitthvað í verkinu. Dóttirin, þá 9 ára, átti myndina sem fór á forsíðuna. Það steig henni nokkuð til höfuðs, fannst mér þá. Hún taldi meðal annars hreinan óþarfa að lesa innihald ritsins, þar sem fyllilega nægði að skoða bara forsíðuna. Hún hafði samt nokkuð til síns máls, eins og menn sjá ef þeir skoða þessa forsíðumynd:



Níu ára barn skildi það sem virðist vefjast fyrir landlækni að skilja: að það eru læknarnir sem halda á lyklinum.


Tengdar fréttir




Skoðun

Sjá meira


×