Innlent

Sjósundkappar létu storminn ekki stöðva sig

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
"Gleðin á myndunum er ósvikin," segir Baldvin, aðspurður hvort hópurinn hafi skemmt sér vel í ölduganginum í gær.
"Gleðin á myndunum er ósvikin," segir Baldvin, aðspurður hvort hópurinn hafi skemmt sér vel í ölduganginum í gær. mynd/baldvin
Eflaust héldu flestir sig í hlýjunni innandyra í storminum sem gekk yfir í gær, en það á ekki við um þrjá starfsmenn Háskólans í Reykjavík sem ákváðu frekar að skella sér í sjósund. Hópurinn fer einu sinni í viku í sjósund í Nauthólsvík í öllum veðrum og vindum, að sögn Baldvins A Baldvinssonar Aalen, sem starfar á upplýsingatæknisviði HR.

„Þetta er bara æðislegt. Við förum alltaf nokkur saman úr HR einu sinni í viku, en það er alltaf fullt af fólki þarna niðurfrá á miðvikudögum í hádeginu,” segir Baldvin í samtali við Vísi. Aðspurður segir hann sjóinn enn nokkuð hlýjan.

„Sjórinn var var níu gráður í gær, hann er ekki orðinn kaldur enn þá. En þrátt fyrir að fæstir skilji það, þá er í raun miklu betra að vera úti í sjó í svona veðri en að labba á milli húsa, en maður þarf auðvitað að vera rétt útbúinn.

Baldvin hefur stundað sjósund af krafti í eitt ár, en vinnufélagar hans í sex ár. Hann segist ekki hafa getað hætt eftir að hafa byrjað, enda sé sjósund allra meina bót.

„Þetta styrkir ónæmiskerfið sem er ein af ástæðunum fyrir því að fólk gerir þetta. Þetta er auðvitað talsvert kalt en við förum í pottinn og erum hálftíma þar til að ná hitanum upp. Ef við myndum ekki gera það tæki það allan daginn að ná upp líkamshitanum,” segir Baldvin og bætir við að næsti sprettur verði tekinn á morgun.

Hópurinn lét kuldann og óveðrið ekkert á sig fá.mynd/baldvin

Tengdar fréttir

Innanlandsflug liggur niðri

Allar ferðir Flugfélags Íslands eru nú á bið vegna veðurs og þá hefur flugfélagið Ernir aflýst öllum ferðum sínum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×