Erlent

Sjónvarpspredikari ver kaup á 65 milljóna dollara einkaflugvél

Birgir Olgeirsson skrifar
Creflo Dollar messar hér yfir söfnuði sínum.
Creflo Dollar messar hér yfir söfnuði sínum. Vísir/YouTube
Bandaríski sjónvarpspredikarinn Creflo Dollar hefur svarið fyrir gagnrýni sem hann fékk á sig eftir að hann keypti 65 milljóna dollara einkaflugvél, sem nemur um 8,8 milljörðum íslenskra króna.

Vélin er ætluð Dollar og starfsfólki hans til að breiða út boðskap guðs en hann hafði þetta við gagnrýnendur sína að segja: „Ég skal segja ykkur hvað það er að trúa á guð. Ég get látið mig dreyma eins lengi og ég vil. Ég trúi á guð eins lengi og ég vil. Ef ég vil trúa á guð til að fá 65 milljóna dollar flugvél, þá getur þú ekki stöðvað mig. Þú getur ekki ekki eyðilagt draum minn.“

Hann hafði beðið rúmlega 200 þúsund fylgjendur sína að ánafna 200 dollurum, eða sem nemur um 27 þúsund krónum, í sérstakan sjóð sem var eyrnamerktur flugvélarkaupunum. Fjáröflunarsíðan var síðar tekin niður en Dollar heldur því fram að djöfullinn sjálfur hafi náð að eitra fyrir fjáröfluninni.

Hann trúir því að kölski sé hreinlega að gera hann tortryggilegan til að koma í veg fyrir að hann breiði út boðskap guðs.

„Óvinurinn þarf að gera fylgjendur guðs tortryggilega því hann vill ekki að þú vitir að þú getur gengið á vatni ef þú horfir til Jesú.“

Hann sagðist aldrei hafa seilst í vasa fylgjenda sinna til að fjármagna kaupin á vélinni heldur hefðu bakhjarlar hans erlendis ólmir viljað hjálpa honum svo hann gæti flogið til annarra landa með boðskapinn.

Dollar er einn af vinsælustu predikurum Bandaríkjanna sem boða boðskap um velmegun, það er að mikill auður sé tákn um velvild guðs.

„Ég vil líka að þið skiljið eitt. Ef þeir uppgötva líf á mars, þá þarf ég að trúa á guð til að fá milljarð dollara svo ég geti keypt geimskutlu því við þurfum að dreifa boðskap guðs á mars.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×