Innlent

Sjálfstæðisflokkurinn með 43%

Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson mynd/gva
Sjálfstæðisflokkurinn ber höfuð og herðar yfir aðra flokka samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins. Stjórnarflokkarnir njóta samanlagt stuðnings ríflega 23 prósenta.

Torvelt gæti reynst að mynda ríkisstjórn án aðildar Sjálfstæðisflokksins verði niðurstöður kosninga í takt við niðurstöðu skoðanakönnunar Fréttablaðsins. Flokkurinn nýtur stuðnings tæplega 43 prósenta kjósenda og fengi samkvæmt því 29 þingmenn.

Fimm aðrir flokkar fengju þingmenn kjörna samkvæmt könnuninni, og þyrftu þeir að mynda fimm flokka stjórn ætluðu þeir sér að halda Sjálfstæðisflokknum frá stjórnarráðinu.

Stuðningur við Samstöðu, flokk Lilju Mósesdóttur, dregst verulega saman frá könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2, sem gerð var snemma í febrúar. Þá mældist flokkurinn með 21 prósents fylgi, en fengi um sex prósent og fjóra þingmenn samkvæmt nýju könnuninni.

Stjórnarflokkarnir myndu ekki ríða feitum hesti frá kosningum samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar. Samfylkingin mælist með tæplega fimmtán prósenta stuðning og Vinstri grænir með tæplega níu prósent. Samanlagt fengju flokkarnir 16 þingmenn, langt frá þeim 32 sem þeir hafa í dag, eftir afföll í þingliði Vinstri grænna á kjörtímabilinu.

Enn er hátt hlutfall kjósenda sem ekki gefa upp afstöðu sína í könnuninni. Um tíu prósent sögðust óákveðin og tæp 16 prósent sögðust ekki myndu kjósa eða skila auðu yrði gengið til kosninga nú. Þá vildu 20 prósent ekki gefa upp afstöðu sína.- bj / sjá síðu 8



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×