Körfubolti

Sjáið Jón Arnór stela boltanum og allt verður vitlaust í höllinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson getur sko hoppað eins og hann sýnir hér á móti Spáni á Eurobasket.
Jón Arnór Stefánsson getur sko hoppað eins og hann sýnir hér á móti Spáni á Eurobasket. Vísir/Getty
Jón Arnór Stefánsson og félagar hans Valencia Basket eru enn á lífi í spænsku úrslitakeppninni í körfubolta eftir dramatískan sigur í mögnuðu leik á móti Real Madrid í gærkvöldi.

Jón Arnór kom við sögu á lokasekúndunum þegar hann sameinaði reynslu sína og íþróttamannshæfileika til að koma í veg fyrir hugsanlega sigurkörfu frá leikmönnum Real Madrid.

Real Madrid vann tvo fyrstu leikina á heimavelli sínum en þetta var fyrsti heimaleikur Valencia Basket í seríunni. Valencia Basket vann leikinn á endanum með einu stigi, 87-86, eftir framlengingu.

Spænski landsliðsmaðurinn Guillem Vives skoraði sigurkörfuna nokkrum sekúndum fyrir leikslok en það var Jón Arnór Stefánsson sem sá til þess að leikmenn Real Madrid náðu ekki skoti í lokin. Vives mætti Jóni Arnóri og íslenska landsliðinu á Eurobasket í Berlín í september í fyrra.

Leikurinn var hinsvegar ekki búinn eftir þessa körfu Vives sem var af erfiðari gerðinni. Real Madrid ætlaði að henda löngum bolta fram völlinn eftir að Guillem Vives skoraði en útsjónarsemi Jóns Arnórs kom þá vel í ljós þegar hann spretti aftur , tókst að stela sendingunni og gulltryggja sínu liði sigurinn.

Það varð í framhaldinu allt vitlaust í höllinni enda höfðu heimamenn ástæðu til að fagna sigri í frábærum leik. Liðið missti einn sterkan leikmann handarbrotin af velli í upphafi leiks og missti auk þess niður forskot í fjórða leikhlutanum en Jón Arnór og félagar voru sterkari á taugunum í lokin.

Valencia Basket hefur sett inn myndband af þessum tveimur lokasóknum leiksins og má sjá það hér fyrir neðan. Þar sést vel hversu langt Jón Arnór hoppaði til að ná að stela boltanum.

Liðin mætast síðan aftur á heimavelli Valencia Basket annað kvöld. Þar getur Valencia Basket tryggt sér oddaleik í Madrid á laugardaginn en tap þýðir að Jón Arnór og félagar eru komnir í sumarfrí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×