Lífið

Sindri Eldon genginn í Dynamo Fog

Meira indí, Meiri groddi! Dynamo Fog: Sindri Eldon, Jón Þór Ólafsson og Arnar Ingi Viðarsson.mynd/Ernir Eyjólfsson
Meira indí, Meiri groddi! Dynamo Fog: Sindri Eldon, Jón Þór Ólafsson og Arnar Ingi Viðarsson.mynd/Ernir Eyjólfsson

„Hann er týndi hlekkurinn sem vantaði í bandið," segir Jón Þór í hljómsveitinni Dynamo Fog um Sindra Eldon, sem nú hefur gengið til liðs við sveitina. „Við náðum satt að segja aldrei almennilega saman með Axel, en nú er tríóið fullkomnað."

Sindri spilaði sem kunnugt er með Dáðadrengjum og hefur sungið með pönkbandinu Slugs auk þess að semja músík einn síns liðs. Hljómsveitin Dynamo Fog hefur vakið nokkra lukku síðustu misserin, þá helst fyrir „Let's rock and roll", sem er svo grípandi stuðrokkari að það var notað í handboltaauglýsingu á Ríkissjónvarpinu. Sindri kemur í stað Axels „Flex" Árnasonar, sem yfirgaf bandið og spilar nú á trommur með Jeff Who? - „Tja, hvað heitir það? Listrænn ágreiningur?" segir Jón Þór og hlær.

Það kom sér illa að Axel gekk úr skaftinu því hljómsveitin var búin að taka upp níu lög af tíu fyrir fyrstu plötuna sína. „Ég held að þær upptökur verði nú bara að safna ryki því Axel vill fá ákveðna upphæð fyrir þær og hana eigum við ekki til," segir Jón Þór, en Axel er upptökumaður og rekur sitt eigið hljóðver. „Þetta verður bara tekið upp frá grunni enda er bandið breytt með tilkomu Sindra, það er miklu meira indí í gangi og meiri groddi."

Jón Þór segir „nýjan singúl" væntanlegan bráðlega, bandið verði á Iceland Airwaves og „svo verður bara spilað á öllum sóðakömrum á landinu". - drg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×