Fótbolti

Simeone í þriggja leikja bann fyrir boltastráksmálið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Diego Simeone missir af lokaleikjum mótsins.
Diego Simeone missir af lokaleikjum mótsins. vísir/getty
Diego Simeone, þjálfari Atlético Madrid, fær ekki að vera á hliðarlínunni í síðustu þremur deildarleikjum liðsins þar sem hann var úrskurðaður í þriggja leikja bann fyrir brottvísunina sem hann fékk um síðustu helgi.

Argentínumaðurinn var sendur upp í stúku í 1-0 sigri Atlético gegn Málaga síðastliðinn laugardag þegar bolta var kastað inn á völlinn úr boðvangnum. Simeone kastaði boltanum ekki sjálfur en sætti sig við brottvísun dómarans Antonio Mateu þar sem hann gat ekki gert neitt annað en rekið Simeone af velli.

„Það er klárt að dómarinn gerði rétt. Hann fylgdi bara reglunum. Það er ekki hægt að segja mikið meira en það,“ sagði Simeone eftir leikinn

Það var ekki Simeone sem kastaði boltanum heldur ungur boltastrákur en af myndbandsupptöku að dæma má greina að Simeone hvetur drenginn til þess í von um að stöðva leikinn þar sem Málaga var í skyndisókn.

„Það var lítill strákur sem kastaði boltanum en það skiptir engu,“ sagði Simeone.

Spænska knattspyrnusambandið fór vel yfir myndbandsgögnin og ákvað að úrskurða Simeone í þriggja leikja bann sem er mikið áfall fyrir Atlético Madrid á þessum tímapunkti.

Liðið er jafnt Barcelona á toppnum með 82 stig þegar þrjár umferðir eru eftir og er í bullandi séns að verða Spánarmeistari í annað sinn á síðustu þremur árum.

Diego Simeone missir af leikjum gegn Rayo vallecano, Levante og Celta Vigo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×