Innlent

Silfurreynirinn fær að standa: "Sem betur fer tóku borgaryfirvöld við sér“

Bjarki Ármannsson skrifar
Einar Kristinn og Ylfa Dögg Árnadóttir stóðu vörð um silfurreyninn.
Einar Kristinn og Ylfa Dögg Árnadóttir stóðu vörð um silfurreyninn. Vísir/Vilhelm
„Við erum sátt með þetta fyrirkomulag,“ segir Eiríkur Kristinn Jónsson, einn íbúa við Grettisgötu. Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur hefur ákveðið að 106 ára silfurreynir, sem til stóð að fella vegna hótelbyggingar á Laugavegi, fái að standa.

RÚV greindi frá því í gær að málamiðlunartillaga eiganda lóðarinnar sem tréð stendur á hefði verið samþykkt af borgaryfirvöldum. Borgin mun finna tveimur friðuðum húsum á lóðinni nýjan samastað og tréð fær að standa óáreitt. Í staðinn verður hluti nýbyggingarinnar við Laugaveg hækkaður um eina hæð.

„Það hefur svosem ekki beint áhrif á skuggavarp á okkar svæði,“ segir Eiríkur. „Ekki eins og það hefði gert að færa þessi tvö hús framfyrir.“

Eiríkur er einn þeirra íbúa Grettisgötu sem vöktu hvað mesta athygli á fyrirhugaðri fellingu reynitrésins. Staðið var fyrir undirskriftasöfnum og tónleikum í götunni í júní til að mótmæla áformunum.

„Eftir að það var búið að halda þessa tónleika og svoleiðis, þá var eiginlega búið að gera allt sem hægt var að gera,“ segir Eiríkur. „Eftir það var þetta í höndum borgarinnar. Sem betur fer tóku þau við sér og gerðu eitthvað í stað þess að láta þetta bara fara í gegn.“

Eiríkur segir almenna sátt meðal íbúa götunnar með að tréð fái að standa og að huggulegur garður verði á lóðinni  þegar húsin tvö verða færð.

„Svo er það annað mál svosem, hvað á að vera mikið af hótelbyggingum hérna í miðbænum,“ segir hann að lokum. „Það eru svona átta hótel milli Frakkastígs og Klapparstígs fyrir. Maður hugsar, hvernig ætli þetta líti út að vetri til þegar öll þessi hótel eru hálflokuð.“

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur samþykkti málamiðlunartillögu eiganda lóðarinnar sem tréð stendur á við Grettisgötu 17 en húsið þar auk bakhúss við Laugveg eru friðuð og mun borgin taka þau yfir og flytja burt. Verulegur kostnaður mun falla á borgina vegna þess, segir Hjálmar Sveinsson, formaður Umhverfis-og skipulagssviðs en enn er ekki komið í ljós hvað kostnaðartölur hljóða upp á.

Nýja hótelið við Laugaveg sem verður byggt mun fá að byggja eina hæð til viðbótar og því verður ekki það gríðarlega rask fyrir íbúana því brjóta hefði þurft upp undir húsunum vegna hótelbyggingarnnar samkvæmt upphaflegum áfrormum.

 


Tengdar fréttir

Íbúarnir ætla að standa vörð um 100 ára silfurreyni

Útlit er fyrir að rúmlega 100 ára silfurreynir verði felldur vegna hótelbyggingar milli Laugavegs og Grettisgötu. Íbúar í grenndinni hafa hrundið af stað undirskriftasöfnun til að mótmæla framkvæmdum á svæðinu.

„Þetta er rammpólitískt“

Hópur fólks kom saman á samstöðufundi á Grettisgötu í dag til að standa vörð um rúmlega hundrað ára gamlan silfurreyni á Grettisgötu 17, sem á að fella ef áætlanir um hótelbyggingu ná fram að ganga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×