Innlent

Sigurför fyrir sjálfsmyndina

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hluti íslenska hópsins sem tekur þátt í mótinu í Borg englanna.
Hluti íslenska hópsins sem tekur þátt í mótinu í Borg englanna. aðsend mynd
Fimmtíu og átta manna hópur frá Íslandi er staddur í Los Angeles í Bandaríkjunum þessa dagana í tilefni af Special Olympics. Í íslenska hópnum er 41 keppandi í níu greinum. Special Olympics eru íþróttaleikar fyrir fólk með þroskahömlun.

Anna Karólína Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri Special Olympics á Íslandi, segir að keppnin hafi byrjað í fyrradag og hafi haldið áfram í gær. „Sumir eru að fá gullverðlaun í fyrsta sinn á ævinni af því að þeir eru að keppa við jafninga sína,“ segir hún.

Anna Karólína segir þetta gott dæmi um það hversu vel mótið er skipulagt. „Það eru mörg börn sem fara í gegnum grunnskóla og fá aldrei gullverðlaun. Það eru mörg tilefni til að fagna þarna úti,“ segir hún.

Að sögn Önnu Karólínu er meginmarkmið Íslendinganna að fagna.

„Þau fá verðlaun fyrir fyrsta til þriðja sætið og svo borða fyrir 4., 5., 6., 7. og 8. og við fögnum alveg eins mikið þeim sem koma heim með áttunda sætið,“ segir Anna Karólína en bætir því við að gullið sé alltaf vinsælast.

„Þetta er sigurför, ekki síst fyrir sjálfsmyndina,“ segir Anna Karólína um ferð Íslendinganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×