Viðskipti innlent

Sigurður segist ekki hafa vitað af Wintris

ingvar haraldsson skrifar
Sigurður Hannesson segir Sigmund ekki hafa rætt persónuleg fjármál sín eða eiginkonu sinnar við sig áður en sagt var frá Wintris opinberlega.
Sigurður Hannesson segir Sigmund ekki hafa rætt persónuleg fjármál sín eða eiginkonu sinnar við sig áður en sagt var frá Wintris opinberlega. fréttablaðið/stefán
Sigurður Hannesson, fulltrúi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í framkvæmdahópi um afnám fjármagnshafta, segir að sér ekki hafa verið kunnugt um eðli félagsins Wintris áður en sagt var frá því í fjölmiðlum. „Mér var ekki kunnugt um það að þau ættu kröfur á föllnu bankana, hvers eðlis félagið Wintris væri eða hvar í heiminum það væri staðsett,“ segir Sigurður í skriflegu svari til Markaðarins.

Sigmundur seldi helmingshlut í Wintris til Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, eiginkonu sinnar, á gamlársdag 2009. Félagið lýsti kröfum að verðmæti hálfs milljarðs króna í þrotabú föllnu bankanna.

Sigurður segir Sigmund ekki hafa rætt við sig um persónuleg fjármál sín eða Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur fyrr en fjallað hafi verið um málið á opinberum vettvangi.

Sigurður var skipaður af Sigmundi sem formaður sérfræðingahóps um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána árið 2013. Þeir voru einnig saman við nám í Oxford á Bretlandi.

Anne Krueger, fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem starfaði sem hagfræðilegur ráðgjafi stjórnvalda við haftalosun, segist ekki vita neitt um Wintris og vill því ekki tjá sig frekar.

Óskað var eftir viðtali við Lee Buchheit, sem starfað hefur sem ráðgjafi stjórnvalda við haftalosun og við Icesave-samningaviðræðurnar en ekki var orðið við þeirri beiðni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×