Handbolti

Sigur PSG í Meistaradeildinni yrði sögulegur fyrir Karabatic

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Nicola Karabatic er sigursæll leikmaður.
Nicola Karabatic er sigursæll leikmaður. vísir/getty
Úrslitahelgin í Meistaradeildinni fer fram 28.-29. júní en þar berjast fjögur bestu lið álfunnar um stærsta bikarinn sem í boði er. PSG mætir Kielce í undanúrslitum og Kiel mætir Veszprém en allir leikirnir verða í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Nicola Karabatic, leikmaður Paris Saint-Germain, getur um aðra helgi orðið fyrsti leikmaðurinn sem vinnur Meistaradeildina með fjórum mismunandi félögum og einnig orðið sá fyrsti til að verja titilinn eftir að Final Four-fyrirkomulagið var sett á laggirnar.

Síðan byrjað var að spila undanúrslitin og úrslitaleikinn sömu helgina í stað þess að liðið mættust heima og að heima í úrslitarimmu árið 2010 hefur engu liðið tekist að verja titilinn. Kiel vann 2010 og 2012, Barcelona 2011 og 2015, Hamburg 2013 og Flensburg 2014.

Karabatic var lykilmaður í liði Barcelona sem varð Evrópumeistari í fyrra og var hann einnig útnefndur besti leikmaður úrslitahelgarinnar áður en hann skipti yfir til PSG. Nú getur hann orðið fyrsti maðurinn til að verja titilinn og unnið Meistaradeildina með fjórða félaginu. Hann vann meistaradeildina með Montpellier 2003, Kiel 2007 og Barcelona í fyrra.

Thierry Omeyer, markvörður PSG, er einnig mjög sigursæll í Meistaradeildinni en hann getur með sigri franska liðsins um aðra helgi orðið tólfti maðurinn sem vinnur Meistaradeildina fimm sinnum. Omeyer vann Meistaradeildina með Montpellier ásamt Karabatic 2003 og svo þrisvar sinnum til viðbótar sem markvörður Kiel. PSG er talið sigurstranglegast ásamt Veszprém þetta árið.

Spænski Úkraínumaðurinn Andrei Xepkin er sigursælasti leikmaður Meistaradeildarinnar frá upphafi en hann vann hana sjö sinnum; sex sinnum með Barcelona og einu sinni með Kiel. Barcelona vann Meistaradeidlina fimm ár í röð frá 1996 til 2000 og eru leikmenn þess liðs því eðlilega margir ofarlega á listanum yfir þá sigursælustu í sögu Meistaradeildarinnar.

Markverðir Börsunga á þeim tíma; Svíinn Tomas Svensson og spænski landsliðsmarkvörðurinn David Barrufet, eru næst sigursælastir í Meistaradeildinni með sex titla ásamt Hvít-Rússanum Sierhei Rutenka.

Meira um þetta má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×