Innlent

Sigríður Björk: Tími kominn á ytra eftirlit með lögreglunni

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
„Ég tel að það sé tímabært að hafa ytra eftirlit með lögreglunni og við höfum lýst yfir vilja til að koma því á,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins. Sigríður var í viðtali hjá Andra Ólafssyni í Íslandi í dag í kvöld.

Spillingarmál tveggja starfsmanna fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru til umfjöllunar í þættinum en fjallað hefur verið ítarlega um þau á Vísi. Málin virðast vera ótengd. Annað þeirra kom upp mjög skyndilega en hitt virðist hafa staðið yfir í um áratug.

„Þetta eru auðvitað grafalvarleg mál og við tökum þeim sem slíkum. Fréttirnar hafa verið gífurlegt áfall fyrir samstarfsfólk mannanna og stjórnendur en það er rétt að halda því til að haga að þau eru enn í rannsókn og dómur hefur enn ekki fallið í þeim,“ segir Sigríður.

Í öðru málinu var lögreglumaður hnepptur í gæsluvarðhald eftir að hann heyrðist í hleruðu símtali ræða við mann úr undirheimunum. Þar virðast honum hafa verið boðið fé í skiptum fyrir upplýsingar. Það mál kom líkt og þruma úr heiðskíru lofti og var starfsfólki fíkniefnadeildarinnar boðið upp á áfallahjálp eftir að það komst upp.

„Fólki var mjög brugðið. Við byggðum upp samtal við sérfræðing og einhverjir sóttu sér aðstoð hjá honum. Starfsmenn lögreglunnar eru hins vegar vanir erfiðum málum og oftar en ekki er stuðningurinn frá samstarfsfélögum sá besti.“

Hitt málið virðist hafa verið í ferli í lengri tíma en það snýr að ásökunum gegn lögreglufulltrúa sem hefur verið ítrekað færður til í starfi eftir að málið komst í hámæli. Þrátt fyrir fjölda ábendinga, bæði innan veggja lögreglunnar og af götunni, virðist ekki útlit fyrir að málið hafi verið rannsakað fyrr en nú. „Ég get aðeins svarað fyrir meðferð málanna eftir að ég tók við sem lögreglustjóri. Spurningum um hvernig þetta var áður verður að vísa til ríkissaksóknara eða fólk sem starfaði hér á þeim tíma,“ segir Sigríður aðspurð um málið en hún tók við sem lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins um mitt ár 2014.

„Ég vona að þessi mál verði ekki til þess að við töpum miklu trausti. Við erum að vinna í því að uppræta þessi mál og höfum nú þegar gert ýmsar ráðstafanir. Það er verið að breyta skipulagi deilda skipulagðra brota og fjármunabrota. Sú vinna hefur gengið vel. Við viljum styrkja rannsóknir mála tengdu mansali, vændi, rána, innbrota og annarra skipulagðra brotamála. Vinna okkar nú miðar að því,“ segir Sigríður.


Tengdar fréttir

Þöggun í kringum rannsókn

Atli Gíslason fór fyrir viðamikilli rannsókn á störfum lögreglu fyrir tuttugu árum. Skýrslan var aldrei gerð opinber.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×