Fótbolti

Sif sá rautt en Kristianstads náði í mikilvægt stig í fallbaráttunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sif verður í leikbanni í lokaumferðinni.
Sif verður í leikbanni í lokaumferðinni. vísir/vilhelm
Kristianstads, sem Elísabet Gunnarsdóttir þjálfar, er í fallhættu fyrir lokaumferðina í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Sif Atladóttir var í byrjunarliði Kristianstads gegn Kvarnsvedens en var rekin af velli þegar þrjár mínútur voru til leiksloka. Þá var staðan 1-1.

Þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma kom Tabitha Chawinga Kvarnsvedens yfir og virtist hafa tryggt liðinu öll stigin þrjú. En stelpurnar hennar Elísabetar gáfust ekki upp og Mia Carlsson jafnaði metin á 95. mínútu með sínu öðru marki. Lokatölur 2-2.

Fyrir lokaumferðina, sem verður leikin næsta laugardag, er Kristianstads í 10. sæti deildarinnar með 14 stig. Liðið er einu stigi á undan Mallbackens og tveimur stigum á undan Umeå sem er einmitt mótherji Kristianstads í lokaumferðinni.

Glódís Perla Viggósdóttir var á sínum stað í vörn Eskilstuna United sem vann 3-0 sigur á Örebro á heimavelli.

Félagi Glódísar í miðri vörn íslenska landsliðsins, Anna Björk Kristjánsdóttir, var í byrjunarliði Örebro og lék fyrstu 85 mínútur leiksins.

Eskilstuna er í 3. sæti deildarinnar en Örebro í því níunda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×