Erlent

Shield-stjarna sek um að myrða eiginkonu sína

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Michael Jace í dómsal.
Michael Jace í dómsal. Vísir/Getty
Leikarinn Michael Jace, sem er hvað best þekktur fyrir að leika lögreglumanninn Julien Lowe í sjónvarpsþáttunum The Shield, var í dag fundinn sekur um að hafa myrt eiginkonu sína.

Michael var handtekinn í maí 2014 eftir að eiginkona hans, April Jace, fannst látinn á heimili þeirra. Ljóst var að hún hafði verið skotin til bana.

Verjendur Michael sögðu að ljóst væri að hann hafði skotið eiginkonu sína. Þeir vildu þó meina að um ástríðuglæp hafi verið að ræða sem framinn hafi verið í hita leiksins. Taka ætti tillit til þess.

Saksóknarar sögðu þó aðra sögu og gáfu það skýrt til kynna að Michael hafi undirbúið glæpinn. April hafði óskað eftir skilnaði og beið Michael eftir henni á heimili þeirra er hún kom heim úr vinnu. Skaut hann hana svo til bana.

Tveir synir þeirra voru heima við þegar April var myrt. Hefur þeim verið komið fyrir í vörslu ættingja en ljóst er að Michael Jace mun vera dæmdur í allt að lífstíðarfangelsi.

Michael lék í 89 þáttum af The Shield á árunum 2002 til 2008 og fór með smærri hlutverk í þáttum á borð við Southland, Private Practice, The Mentalist, Burn Notice og NYPD Blue.

Þá lék hann körfuboltagoðsögnina Michael Jordan í sjónvarpsmynd árið 1999 og lék einnig í kvikmyndunum State of Play og Forrest Gump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×