Erlent

Sex mánaða fangelsi fyrir að „vera of góður í rúminu“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Maðurinn er frá þorpi í grennd við Pádóva.
Maðurinn er frá þorpi í grennd við Pádóva.
Ítalskur maður frá þorpinu Vigodarzere í grennd við borgina Padóva var dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir að „vera of góður í rúminu“.

Romeo Artermio Lori, sem er 42 ára gamall, var kærður fyrir brot á  lögum um friðhelgi einkalífsins. Alls lögðu tólf nágrannar Romeo fram kæru vegna þess að kærasta hans var of hávaðasöm þegar parið stundaði kynlíf. Nágrannarnir, sem búa í sömu blokk og hann, segja Romeo hafa truflað friðinn í blokkinni og að stunur kærustunnar hafi haldið vöku fyrir þeim.

Dómurinn yfir Romeo var byggður á lögum sem voru hugsuð til að ná yfir eltihrella (e. stalkers). Því vekur dómurinn enn meiri athygli. Romeo ætlar að áfrýja honum – hann sagði vera mikinn mun á því að sitja um fólk og vera með hávaða, og virðist hafa nokkuð til síns máls. Einnig vekur athygli að Romeo var kærður og dæmdur en ekki kærastan hans, sem var sú sem nágrannarnir sögðu hafa verið með lætin.

Hann sagði dómarann vera að refsa sér fyrir „að vera of góður í rúminu.“

Málið verður væntanlega tekið fyrir á æðri dómstigum ítalska réttarkerfisins innan skamms.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×