Viðskipti innlent

Sex buðu í Plastprent

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sex aðilar sendu inn tilboð í fyrirtækið Plastprent sem selt var Kvos, móðurfélagi Odda, á dögunum. Fyrirtækið var áður í eigu Framtakssjóðsins.

Pétur Þ. Óskarsson, hjá Framtakssjóðnum, segir að þrettán hafi sýnt fyrirtækinu áhuga með því að sækja gögn í opnu ferli sem var í höndum Straums. Síðan hafi sex sent inn skilyrt tilboð og fjórir verið valdir í annan fasa á ferlinu. „Í öðrum fasa var ákveðið að ganga til viðræðna við Kvos enda uppfylltu þeir öll skilyrði og voru hæstbjóðendur," segir Pétur.

Einn þeirra sem stóðu að tilboði var Kristþór Gunnarsson framkvæmdastjóri Ísafoldarprentsmiðju ehf. Prentsmiðjan sjálf bauð hins vegar ekki í fyrirtækið. Kristþór gagnrýndi í blaðagrein á dögunum harðlega að Kvos hafi fengið að kaupa Plastprent eftir að Kvos hafði nýlega fengið afskrifaða 5 milljarða af skuldum fyrirtækisins. „Ég veit að þeir sem fengu að bjóða í Plastprent þurftu að sýna fram á 250 milljóna króna fjárfestingargetu. Hvernig gat Kvos hf. sýnt fram á slíka getu?"

Kristþór segir í samtali við Vísi að þetta sé kjarni málsins. Málið snúist ekki um siðferðisspurningar, sem Framtakssjóðnum sé ætlað að svara. Hins vegar hefði verið eðlilegt að Kvos hefði sýnt fram á það, eftir allar afskriftirnar, að fyrirtækið stæði undir þeirri fjárfestingagetu sem gerð var krafa um.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×