Körfubolti

Seldu bestu þriggja stiga skyttuna fyrir ljósritunarvél

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kyle Korver hefur búið sér til frábæran feril.
Kyle Korver hefur búið sér til frábæran feril. vísir/getty
Kyle Korver, besta þriggja stiga skytta NBA-deildarinnar í körfubolta, hefur verið gríðarlega vanmetinn nánast allan sinn feril. Svo vanmetinn að hann var seldur fyrir „smámynt“ í sjálfu nýliðavalinu.

Bandaríski blaðamaðurinn Zach Lowe birti skemmtilega grein um Korver á íþrótta- og dægurmálavefnum Grantland.com í gær þar sem hann fer yfir sögu þessa áhugaverða leikmanns.

Hann segir frá nýliðavalinu 2003 þegar New Jersey Nets (nú Brooklyn Nets) horfði á eftir öllum leikmönnunum sem það hafði áhuga á fara til annarra liða.

New Jersey, sem vann sinn riðil og komst í lokaúrslitin sama ár, átti 51. valrétt og þegar það kom loks að því að velja voru allir leikmennirnir sem það hugsaði sér að fá farnir. Það valdi því framherjann Kyle Korver frá Creighton-háskólanum.

Nets var í miklum peningavandræðum á þessum tíma, skrifar Lowe, og íhugaði meira að segja að selja valréttinn sinn til að fjármagna lið í sumardeild NBA.

Svo fór að Nets seldi Korver, eða valréttinn á honum, til Philadelphia fyrir 125.000 dali og fjármagnaði með því lið í sumardeildinni þar sem minni spámenn fá tækifæri til að sanna sig. Fyrir peninginn sem var afgangs keypti Nets svo ljósritunarvél.

Korver gefur allt í leikinn.vísir/getty
New Jersey var bara eitt af mörgum liðum sem átti eftir að vanmeta Korver, en þessi 33 ára gamla skytta átti eftir að spila með Utah Jazz og Chicago Bulls áður en hann endaði hjá Atlanta Hawks fyrir tveimur árum.

Hjá Hawks skoraði hann ekki þriggja stiga körfu í fyrsta leiknum sínum, en setti svo niður a.m.k. einn þrist í næstu 127 leikjum í röð. Metið voru 89 leikir í röð, en Korver bætti metið og rúmlega það.

Hann er í dag einn af fáum leikmönnum sem eftir eru sem hleypur um völlinn til að fá sig lausan, grípur boltann og neglir niður þristum, ekki ósvipað leikstíl ReggieMiller, skrifar Lowe.

Á síðustu leiktíð spilaði Korver flestar mínútur að meðaltali á ferlinum og skoraði úr 47,2 prósent þriggja stiga skota sinna sem er nánast galin tölfræði. Hann hefur þénað 45 milljónir dala á ferlinum, og gefur mikið af því til kirkju föður síns og annarra góðgerðarmála.

Þá var hann valin í 17 manna æfingahóp bandaríska landsliðsins á dögunum fyrir heimsmeistaramótið sem hefst í næsta mánuði.

Alla greinina á vef Grantland má lesa hér.

90 þristar á 90 sekúndum:
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×