Viðskipti innlent

Seldi sér Iceland Express á 20 sinnum lægra verði

Iceland Express flugfélagið var metið á 20 sinnum hærra verði árið 2006 en það verð sem Pálmi Haraldsson greiddi fyrir flugfélagið þegar hann seldi sjálfum sér það út úr Fons.

Flugfélagið Iceland Express var selt út úr Fons, eignarhaldsfélagi Pálma Haraldssonar, hinn 24. nóvember 2008 til eignarhaldsfélagsins Fengs, sem einnig var í eigu Pálma. Þetta var einum og hálfum mánuði eftir bankahrunið. Kaupin voru framkvæmd þannig að hlutafjáraukning átti sér stað í Fons upp á 300 milljónir króna og var Pálmi Haraldssonar skráður fyrir hrenni allri.

Iceland Express var hins vegar metið á sex milljarða króna þegar það var fært frá Fons inn í Northern Travel Holding í desember árið 2006. Þegar flugfélagið var selt til Pálma á ný í nóvember 2008 var það selt á 20 sinnum lægra verði en það hafði verið metið á aðeins tveimur árum áður.

Viðskiptablaðið greinir frá þessu í dag í fréttaskýringu, en samkvæmt áætluninni Project ScanTravel mun Iceland Express hafa verið selt frá Fons til NTH á sex milljarða. Viðskiptablaðið greinir frá því að ekkert hafi verið greitt fyrir kaupin heldur hafi Fons veitt NTH sex milljarða króna seljendalán vegna viðskiptanna, þetta lán hafi síðan verið bókfært sem eign í ársreikningi Fons.

Fons var sem kunnugt er úrskurðað gjaldþrota í apríl 2009. Kröfur í þrotabú félgasins nema fjörutíu milljörðum króna. Skiptastjóri þrotabús Fons hefur sem kunnugt er ákveðið að láta reyna á riftun arðgreiðslu upp á 4,2 milljarða króna út úr Fons til félagsins Matthews Holding í Lúxemborg í ágúst 2007. Stefna þess efnis verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur síðar í dag.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×