Innlent

Sektir fyrir að leggja ólöglega tvöfaldaðar

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Anton
Borgarráð samþykkti á fundi í gær að tvöfalda sektir fyrir að leggja ólöglega og í stæði fatlaðra. Sekt fyrir að leggja ólöglega verða því hækkaðar úr fimm þúsund krónum í tíu þúsund. Sekt fyrir að leggja í stæði fatlaðra hækkar úr tíu þúsund krónum í tuttugu þúsund krónur.

„Við erum ekki í tekjuöflun. Við viljum draga verulega úr þessum brotum og helst að þau hætti alveg. Þá sérstaklega í stæði fatlaðra,“ segir Kolbrún Jónatansdóttir, framkvæmdastjóri Bílastæðasjóðs í samtali við Vísi.

Mynd/Bílastæðasjóður
Árið 2010 voru stöðubrot í stæði fatlaðra 717 og í fyrra voru þau 616. Kolbrún segir að frá því að sektin fyrir slík brot hafi verið hækkuð í tíu þúsund krónur árið 2010 hafi fjöldi brota farið á milli 700 og 600 á ári.

Fyrir árið 2010 var sekt fyrir að leggja í stæði fatlaðra sú sama og að leggja ólöglega annarsstaðar. Því eru ekki til tölur um þau brot fyrir það ár.

Mynd/Bílastæðasjóður
Fjöldi stöðubrota var í hámarki árið 2008, en aðeins dró úr þeim næstu tvö árin. Þá var gjaldið 2.500 krónur eða 1.950 krónur með afslætti. Árið 2010 var sektin hækkuð um hundrað prósent í fimm þúsund krónur og 3.900 krónur með afslætti.

Stöðubrotum fækkaði ekki þrátt fyrir hækkun sekta.

„Við höfum verið með forgöngu um að sækja um hækkunina og höfum gert það í samstarfi við lögregluna. Þeir eru algjörlega á sama máli og við,“ segir Kolbrún.

Innanríkisráðuneytið þarf að staðfesta breytinguna og birta auglýsingu í Lögbirtingarblaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×