Erlent

Segjast geta nafngreint rússnesku njósnarana

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Yfirmenn bandarískra leyniþjónustustofnana á fundi þingnefndar á fimmtudaginn. Fréttablaðið/EPA
Yfirmenn bandarískra leyniþjónustustofnana á fundi þingnefndar á fimmtudaginn. Fréttablaðið/EPA
Bandaríska leyniþjónustan segist geta nafngreint rússneska einstaklinga sem hafi staðið á bak við innbrot í tölvukerfi Demókrata fyrir forsetakosningarnar í nóvember.

Til stóð að Donald Trump fengi ítarlegar upplýsingar um þetta frá leyniþjónustunni, til að byrja með í trúnaði, en á mánudaginn verður birt opinberlega skýrsla bandarísku leyniþjónustunnar um málið.

Donald Trump hefur hingað til efast um að Rússar hafi komið nálægt lekanum, og virðist frekar hafa lagt trúnað á rússnesk en bandarísk stjórnvöld.

Þá hefur Julian Assange, stofnandi uppljóstrunarvefsins Wikileaks, fullyrt að lekinn hafi ekki borist frá rússneskum stjórnvöldum.

Yfirmenn bandarísku leyniþjónustunnar hafa hins vegar svarað Trump fullum hálsi og gagnrýna hann fyrir að draga trúverðugleika þeirra í efa: „Það er munur á að efast og að níða skóinn niður af fólki,“ sagði James Clapper, yfirmaður bandarísku leyniþjónustustofnananna, í yfirheyrslu hjá hermálanefnd Bandaríkjaþings á fimmtudag.

Þá segir Joe Biden, sem enn er varaforseti Bandaríkjanna, það fyrir neðan allar hellur að verðandi forseti skuli ekki hafa fulla trú á leyniþjónustunni.

Þá sagði Biden tíma kominn til þess að Trump fari að fullorðnast, enda fari Bandaríkjaþing brátt að grandskoða þau mál sem hann vill hrinda í framkvæmd: Sjálfur ber Trump það til baka á Twitter-síðu sinni að hann treysti ekki leyniþjónustunni eða sé sammála Julian Assange: „Ég segi bara það sem hann segir, svo þarf fólk sjálft að taka afstöðu til þess hver sannleikurinn er. Fjölmiðlarnir ljúga til að láta líta svo út að ég sé á móti leyniþjónustunni þegar staðreyndin er sú að ég er mikill aðdáandi.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×