Innlent

Segja reikninga í fjárlögum ranga

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
BSRB vill að hætt verði við breytingar á virðisaukaskattkerfinu.
BSRB vill að hætt verði við breytingar á virðisaukaskattkerfinu. Vísir/GVA
BSRB hefur sent Alþingi umsögn um frumvarp til laga um virðisaukaskatt og fleira þar sem fram kemur að útreikningar í fjárlagafrumvarpinu standast ekki. Fram kemur að gert sé ráð fyrir að skattabreytingarnar skili sér að fullu út í verðlag, bæði hvað varðar lækkanir og hækkanir. Vitnað er til rannsóknar um áhrif gengissveiflna á verðlag, þar sem fram kemur að styrking krónunnar hafi minni áhrif en veiking.

„Yfirfært á þær breytingar sem nú stendur til að gera þá bendir þetta til þess að skattahækkanirnar muni skila sér betur út í verðlag en skattalækkanirnar,“ segir í umsögninni. Áhrif gengisbreytinga á vöruflokka sé mismunandi. Áhrif af styrkingu séu hverfandi þegar kemur að heimilistækjum, viðhaldi heimilis og raftækjum.

Í umsögninni segir að þar sem fyrrgreindar skattabreytingar virki að mjög miklu leyti á sama hátt og gengisbreytingar gefi samanburðurinn vísbendingar um raunveruleg áhrif skattabreytinganna á verðlag. BSRB segir að dæmi fjárlagafrumvarpsins um áhrif breytinganna á mismunandi fjölskyldur séu ófullkomin og byggist ekki á heildarútgjöldum heimilanna í hvoru skattþrepi.

Lagt er til af hálfu BSRB að hætt verði við þessar breytingar þar til áhrif þeirra hafi verið skoðuð mun betur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×