Innlent

Segja nýja borholu staðfesta orkulind á Reykjanesi

Mælingar á nýrri borholu við Reykjanesvirkjum benda til að þar sé fundið nýtt gjöfult vinnslusvæði, að mati ráðamanna HS Orku, sem hyggjast strax eftir helgi ítreka ósk sína til Orkustofnunar um leyfi til að stækka virkjunina. Raforkan er ætluð álverinu í Helguvík.

Stækkun Reykjanesvirkjunar um 50 megavött var hugsuð sem fyrsta verkefni HS Orku til að útvega raforku til álvers í Helguvík. Efasemdir sérfræðinga Orkustofnunar um að jarðhitasvæðið stæði undir frekari orkuvinnslu hafa komið í veg fyrir að virkjanaleyfi væri gefið út.

Það sem gæti ráðið úrslitum um það hvort leyfi fáist til að stækka virkjunina er þessi borhola hér, sú nýjasta á Reykjanesi. Matið á henni gæti þannig haft afgerandi áhrif á þann kraft sem verður í efnahagsuppbygginu í landinu á næstunni.

Holan er 2.300 metra djúp og er á svokallaðri Stamparein, nýju svæði sem HS Orka bindur miklar vonir við. Í byrjun mánaðarins var byrjað að láta holuna blása í fyrsta sinn til að kanna afl hennar en hitinn mælist 320 gráður.

Albert Albertsson, aðstoðarforstjóri HS Orku, segir alveg ljóst að þetta sé háhitahola. Það sýni allar mælingar. Hann segir aðra holu við Sýrfell sýna 340 stiga hita. Þetta segi þeim í reynd að það sé einn stór hitahlemmur undir öllu þessu svæði og dregur þá ályktun að Stamparein sé gjöfult vinnslusvæði.

Mælingum er ólokið á holunni og því vita menn ekki ennþá afl hennar. Albert segir það koma í ljós á næstu vikum hversu mikið afl hún gefur.

Ráðamenn HS Orku telja hins vegar ekki eftir neinu að bíða og undirbúa nú ítrekun um virkjunarleyfi sem þeir ætla að senda Orkustofnun strax eftir helgi. Þeir segja að vissa sé komin fyrir því að næg orka sé til staðar fyrir stækkaða virkjun. 

 







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×