Innlent

Segir niðurstöður Deloitte hæpnar og sumt beinlínis rangt

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Skrifstofur Deloitte í Smáraturninum í Kópavogi.
Skrifstofur Deloitte í Smáraturninum í Kópavogi.
Niðurstöður endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte um áhrif hækkunar veiðigjalds í nýju frumvarpi eru hæpnar að mati sjávarútvegsráðuneytisins. Þá sé það beinlínis rangt að ekki sé gert ráð fyrir afskriftum og nýfjárfestingum í útreikningi á veiðigjaldi. Ráðuneytið telur jafnframt að umfjöllun Íslandsbanka um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða sé ruglingsleg og að hluta byggð á misskilningi.

Spurning um forsendur

Samkvæmt niðurstöðum Deloitte, sem kynntar voru í vikunni, myndi ríkissjóður taka til sín allan hagnað sjávarútvegsfyrirtækjanna og gott betur, yrði nýtt frumvarp til veiðigjalds að lögum.Samkvæmt útreikningum Deloitte hefði þessi skattlagning þýtt að ríkissjóður hefði tekið til sín 105 prósent af hagnaði sjávarútvegsfyrirtækjanna á árunum 2001-2010.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið vísar þessu á bug í yfirlýsingu sem það sendi frá sér í morgun. Þar segir að Deloitte virðist ganga út frá þeirri meginforsendu að útgerðaraðilar eigi kvótann og eigi þar af leiðandi líka allan hagnað af nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar án tillit til þess hve mikið þeir hafa lagt fram. Taka veiðigjalds sé því skattlagning hagnaðar en ekki greiðsla fyrir afnot af auðlindinni. Með því reikni fyrirtækið sig upp í himinhá skatthlutföll. Hið eðlilega væri að líta á veiðigjöldin sem endurgreiðslu á kostnaði og leigu fyrir heimild til nýtingar á eign sem ekki tilheyrir útgerðinni.

Meta ekki áhrif veðigjalds til lækkunar á tekjuskatti

Í yfirlýsingu ráðuneytisins segir að í því sem Deloitte hafi látið frá sér kemur lítið fram á hverju niðurstöður þeirra séu byggðar. Ljóst sé þó að ýmsar forsendur séu hæpnar. Deloitte til dæmis meti ekki áhrif veiðigjalda á tekjuskattsgreiðslur, þ.e væntanlega lækkun þeirra, en hún eigi til lengri tíma að vera 20% af veiðigjaldinu.

Þá telur ráðuneytið að misræmi sé í útreikningi Deloitte á skuldum útvegsfyrirtækja. Deloitte flokki allar skuldir, hvernig sem þær séu til komnar, og reikni af þeim vexti. Tekjurnar sem notaðar séu í samanburðinum séu hins vegar eingöngu af fiskveiðum og fiskvinnslu. Misræmi sé í þessu efni.

Þá sé það beinlínis rangt að ekki sé gert ráð fyrir afskriftum og nýfjárfestingum útgerðarfyrirtækja í útreikningi á veiðigjaldi. Þetta komi skýrlega fram í fylgiskjali með frumvarpinu. Í tilkynningu segir ráðuneytið jafnframt að umfjöllun Íslandsbanka um flokk 2 í nýju frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða sé ruglingsleg og sumpart byggð á misskilningi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×