Viðskipti innlent

Segja fjárfestingar Nubos skapa þúsund varanleg störf

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Fjárfestingar Kínverjans Huang Nubos munu skapa sjö hundruð störf í greinum þar sem atvinnuleysi er mest. Þá munu þær skapa eitt þúsund varanleg störf hér á landi og tólf milljarða króna í gjaldeyristekjur á ári hverju. Þetta er mat greiningardeildar Arion banka sem hefur unnið sérstaka skýrslu um hagræn áhrif fjárfestingar Nubos hér á landi.

Skýrsla greiningardeildarinnar hefur ekki birst opinberlega áður en skýrslan var unnin á grundvelli upplýsinga sem hirst hafa opinberlega um áforum Nubos, en var ekki unnin í sérstöku samstarfi við hann eða ráðgjafa hans hér á landi.

Til stendur að birta skýrsluna eftir helgi. Nubo hefur sjálfur sagt að fjárfesting hans hér á landi muni nema 20-30 milljörðum króna fái hann grænt ljós frá stjórnvöldum, en þar af eru 10 milljarðar króna sem fara í uppbyggingu á Grímsstöðum á Fjöllum.

Fram kemur í skýrslunni, sem fréttastofa hefur undir höndum, að ætla megi að fjárfesting í lúxushóteli fyrir 20-30 milljarða króna skapi um 1200-1600 ársverk á framkvæmdatíma.

Þá muni bygging 300 herbergja lúxushótels skapa varanleg störf fyrir 600 manns, en til samanburðar vinna um 500 manns í álverinu á Reyðarfirði. Endanleg störf tengd hótelum gætu orðið eitt þúsund.

Framkvæmdin muni jafnframt skapa störf þar sem fyrirsjáanlegt er að þörfin sé mest. Bygging Hörpu hafi skapað um 700 tímabundin störf en greining Arion banka telur að ef af framkvæmdum Nubos verði muni þær vera a.m.k á við eina Hörpu.

Þá ætlar greiningardeildin að gjaldeyrissköpunin verði á bilinu 8-10 milljarðar króna meðan á framkvæmdunum stendur.

Að gefnum ákveðnum forsendum telur greiningardeild að lúxushótel Nubos með 500 herbergjum gæti skilað aukningu í gjaldeyristekjum upp á 12 milljarða króna á ári.

Þá telur greiningardeildin að áhrifin af hótelframkvæmdum gætu orðið svipuð og áhrifin af byggingu Hörpu. Fjármagnið komi þar að auki að utan, sem er auðvitað kostur.

Séu niðurstöður greiningardeildarinnar samandregnar er erfitt að draga aðra ályktun en að fjárfesting Nubos mun hafa jákvæðar afleiðingar fyrir íslenskt efnahagslíf. Hins vegar er ljóst að líklega er meiri upplýsinga þörf til að skapa sátt um fjárfestingar hans hér á landi. thorbjorn@stod2.is





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×