Viðskipti erlent

Segir viðbrögð markaðarins öfgafull

Sæunn Gísladóttir skrifar
Tim Cook, forstjóri Apple, telur viðbrögð markaðarins við sölusamdrátt hjá fyrirtækinu milli ára hafa verið öfgafull. Þetta sagði hann í viðtali í gærkvöldi.

Vísir greindi frá því í síðustu viku að tæknirisinn Apple hefði boðað 13 prósenta samdrátt á tekjum sínum á öðrum fjórðungi reikningsárs fyrirtækisins. Er þessi samdráttur rakinn til minni sölu á iPhone-símum. Þetta var í fyrsta sinn frá árinu 2003 sem salan hjá Apple dregst saman.

Sjá einnig: Hvað er að gerast hjá Apple?

Forsvarsmenn Apple forðast fjölmiðla en Tim Cook samþykkti viðtal við Mad Money á CNBC í gær í ljósi þess að hlutabréf í Apple höfðu lækkað í átta daga í röð, um ellefu prósent. Þetta er í fyrsta sinn sem þetta kemur fyrir hjá fyrirtækinu síðan árið 1998.

Í viðtalinu benti Cook á að fjórðungurinn hefði gengið mjög vel samkvæmt eðlilegum mælikvörðum, hins vegar hefði hann verið undir væntingum markaðsaðila.

Cook sagði að Apple væri ekki að minnka í vinsældum meðal viðskiptavina sinna. iPhone eigandi væri mun líklegri til að kaupa sér uppfærðan iPhone en aðra tegund síma þegar hann skiptir um síma. Ef sala á iPhone símum er að dragast saman er þó ljóst að fyrirtækinu vantar aðra söluvöru.

Cook sagði að Apple myndi færa neytendum vörur í framtíðinni sem þeir gætu ekki lifað án, hins vegar þekkja neytendur í dag ekki þessar vörur. Hann sagði þetta alltaf hafa verið markmið Apple.

Cook telur að Apple Watch muni drífa vöxt hjá fyrirtækinu. Hann benti á að nú væri snjallúrið einungis í sölu í 14 þúsund verslunum og því væru miklir möguleikar á vexti.


Tengdar fréttir

Hvað er að gerast hjá Apple?

Tekjur drógust saman milli ára hjá Apple í fyrsta sinn í þrettán ár á síðasta ársfjórðungi. Hvað þýðir þetta fyrir fyrirtækið? Hvað er framundan?






Fleiri fréttir

Sjá meira


×