Erlent

Segir þrettán ára stríð á enda

barack og michelle obama Forsetahjónin snæddu kvöldverð með bandarískum hermönnum við Kaneohe-flóa á jóladag. mynd/afp
barack og michelle obama Forsetahjónin snæddu kvöldverð með bandarískum hermönnum við Kaneohe-flóa á jóladag. mynd/afp
Barack Obama Bandaríkjaforseti fagnaði því að stríðið í Afganistan tæki brátt enda í kvöldverði í herstöðvum bandaríska sjóhersins á Hawaii á jóladag.

„Við höfum verið í stöðugu stríði nú í meira en 13 ár,“ sagði Obama við hermenn og fjölskyldur þeirra í herstöðinni við Kaneohe-flóa en hann lofaði því að hernaðinum í Afganistan lyki í næstu viku.

„Þökk sé hinni ótrúlegu þjónustu bandaríska hersins, þá hafa Afganar nú tækifæri til að endurbyggja land sitt. Við erum óhultari. Landið verður ekki uppspretta hryðjuverkaárása á ný,“ sagði hann.

Forsetinn, sem var viðstaddur kvöldverðinn ásamt forsetafrúnni, Michelle Obama, sagði að Bandaríkin stæðu samt enn í erfiðum verkefnum víðs vegar um heim, meðal annars í baráttunni við Íslamska ríkið í Írak og Sýrlandi.

„Við erum enn með fólk í Afganistan sem er að hjálpa afgönsku öryggissveitunum,“ sagði Obama.

„Við erum með fólk í Afríku sem berst gegn ebólunni og augljóslega erum við með fólk á verði alls staðar um heiminn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×