Innlent

Lausn Magma málsins forsenda fyrir stuðningi við ríkisstjórnina

Þingflokksformaður Vinstri grænna segist ekki styðja ríkisstjórnina áfram verði kaup Magma Energy á HS orku ekki gerð ógild. Það sé skýlaus krafa þingflokksins að þeim verði að rifta, ekki sé nóg að takmarka nýtingarréttinn. Iðnaðarráðherra segir að ríkið geti ekki rift samningi sem það er ekki aðili að.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokksformaður VG, segir að samstaða sé innan þingflokksins um að það verði að ógilda samninginn um kaup Magma Energy á HS orku.

„Þetta eru okkar orkuauðlindir sem jú margir hagfræðingar víðsvegar að hafa bent á að sé einn almesti styrkur Íslands til frambúðar og þetta er af þeirri stærðargráðu að það verður að koma í veg fyrir þetta þannig að það var skýr samhljómur um það að þetta mætti ekki gerast," segir Guðfríður Lilja.

En kemur til greina að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að rifta kaupunum?

„Ríkisstjórnin er ekki aðili að þessu máli þannig að orðalagið að rifta kaupum er ekki rétt því það er ekki hægt. Ríkið getur ekki rift samningi sem það er ekki aðili að, hins vegar getur ríkið mótað regluverkið þannig að ríkið sé sterkari aðili en raun ber vitni á orkumarkaði og það er bara eitthvað sem við erum að vinna í að skoða," segir Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra.

Guðfríður Lilja segir að ráðherra hafi heimild í lögum til að koma í veg fyrir tiltekna erlenda fjárfestingu ógni hún almannahag.

Fimm ráðherrar úr ríkisstjórn funduðu í gær vegna málsins og leita nú lausna.

„Þannig að ég ætla að leyfa mér að vona að niðurstaðan verði sú að fólk firri sig ekki ábyrgð heldur taki þetta traustataki og geri það sem þarf að gera, það er ekki á könnu þingsins það er ríkisstjórnin og ráðherrar hennar sem verða að aðhafast í málinu," segir Guðfríður Lilja.

Guðfríður Lilja segir að ef ekkert verði gert í málinu geti hún ekki stutt ríkisstjórnina áfram.








Tengdar fréttir

Krefjast riftunar á kaupum Magma

Þingflokkur Vinstri grænna hefur komið þeirri skýlausu kröfu á framfæri við samstarfsflokkinn í ríkisstjórn að fundin verði leið til að rifta kaupum kanadíska orkufyrirtækisins Magma Energy á HS Orku. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins varð þetta einróma niðurstaða þingflokksfundar sem haldinn var um Magma-málið í gærkvöldi.

Niðurstaða í Magma málinu í næstu viku

Katrín Júlíusdóttir aftekur með öllu að þingflokkur VG hafi komið þeirri skýlausu kröfu á framfæri vð Samfylkinguna að fundin yrði leið til að rifta kaupum kanadíska orkufyrirtækisins Magma Energy á HS Orku.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×