Innlent

Segir óþef af bjarnardrápum á Íslandi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Birnan sem felld var við Hvalnes.
Birnan sem felld var við Hvalnes. vísir/Hanna
Skilningsleysi á dýraverndarsjónarmiðum og virðingarleysi við dýralíf skein í gegn þegar hvítabjörn var felldur við Hvalnes á Skaga á laugardag. Þetta er mat Árna Stefáns Árnasonar, lögfræðings með dýrarétt sem sérsvið.

„Mér finnst skína í gegn gríðarlegt virðingarleysi og það hefur komið í ljós við krufningu í dag. Þessi birna sem kom og var felld var enn með mjólk í júgri sem bendir til þess að það kunni að vera afkvæmi hennar við land líka,“ segir Árni og bætir því við að húnarnir hafi þá verið sviptir móður sinni og berjist nú við dauðann.

Sjá einnig: Öryggisógn og sýkingarhætta: Stefnubreytingu og fjármagn þyrfti ef bjarga ætti hvítabjörnum

Árni segir heimild til staðar í lögum til þess að bjarga hvítabjörnum en einnig heimild til að fella þá ef þær aðstæður þykja vera fyrir hendi að dýrin ógni lífi manna.

„Þegar svona gerist í Kanada eru sérfræðingar sendir á staðinn í þyrlu og þeir látnir skjóta deyfilyfi í dýrið. Síðan er það flutt aftur á fjarlægari slóðir,“ segir Árni og bendir á að flytja hefði mátt dýrið til Grænlands með þessum hætti.

„Mér finnst óþefur af þessu og mér finnst óþefur af öllum þessum hvítabjarnardrápum,“ segir Árni og vísar til þess að fimm dýr hafi verið felld hér á landi á undanförnum árum. „Það er lögfræðingur búinn að skrifa mjög góða ritgerð um réttarstöðu hvítabjarna við Íslandsstrendur sem hefur komist að því að öll þessi dráp hafa verið óþörf og ástæðulaus.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. júlí


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×