Erlent

Segir að svona byrji ferill einræðisherra

Guðsteinn Bjarnason skrifar
John McCain á alþjóðlegri öryggisráðstefnu í München um helgina.
John McCain á alþjóðlegri öryggisráðstefnu í München um helgina. vísir/epa
Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn John McCain segir að óþol Donalds Trump gagnvart fjölmiðlum grafi undan lýðræðinu. Það sé einmitt þannig sem einræðisherrar byrji valdaferil sinn.

Sjálfur sagðist McCain reyndar ekki þola fjölmiðla, en hann geri sér fulla grein fyrir því hve nauðsynlegir þeir séu.

„Mér er mikil alvara með þessu, að ef við viljum halda í það lýðræðisskipulag sem við þekkjum, þá verðum við að hafa frjálsa og stundum fjandsamlega fjölmiðla,“ sagði hann í viðtali í Þýskalandi um helgina. „Án þeirra óttast ég að við myndum glata svo miklu af einstaklingsfrelsi okkar með tímanum. Það er svoleiðis sem einræðisherrar byrja.“

Í dag er mánuður liðinn frá því Donald Trump tók við völdum. Þessar fáu vikur hefur hann hvað eftir annað úthúðað fjölmiðlum fyrir að birta fréttir sem honum þóknast ekki. Hann segir þá vera óheiðarlega, flytja falskar og upplognar fréttir.

Nú síðast sagði hann nokkra helstu fjölmiðla Bandaríkjanna vera „óvin bandarísku þjóðarinnar“. Hann hefur einnig sagt fjölmiðlana vera stjórnarandstöðuflokk gegn sér og ríkisstjórn sinni.

Hann ætli sér hins vegar ekki að láta fjölmiðlana komast upp með það: „Þegar fjölmiðlarnir ljúga að fólki mun ég aldrei láta þá komast upp með það.“

McCain tók um helgina þátt í árlegri öryggisráðstefnu í München ásamt mörgum helstu leiðtogum Vesturlanda. Þar var einnig Mike Pence, varaforseti Trumps, sem hitti þar meðal annars Angelu Merkel Þýskalandskanslara.

Pence hélt einnig í heimsókn til Dachau til að skoða þar útrýmingarbúðir nasista, þar sem hann hitti meðal annars fólk sem lifði af vítisdvölina þar.

Hann sagði það hafa verið áhrifamikla og tilfinningaþrungna stund.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×