Erlent

Segir að sér hafi verið rænt

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Fyrir rétti. Dominic Ongwen, sitjandi, þegar mál hans var tekið fyrir í gær.
Fyrir rétti. Dominic Ongwen, sitjandi, þegar mál hans var tekið fyrir í gær. fréttablaðið/AP
„Mér var rænt árið 1988 og tekinn út í skóg þegar ég var fjórtán ára gamall,“ sagði Dominic Ongwen, liðsmaður í ógnarsveitum Josephs Kony, við fyrirtöku máls hans hjá Alþjóðlega sakadómstólnum í Haag í gær.

Hann var handtekinn í Mið-Afríkulýðveldinu fyrr í þessum mánuði og fluttur í síðustu viku til Haag þar sem á að rétta yfir honum vegna þátttöku hans í voðaverkum sveita Konys í meira en aldarfjórðung.

Hann hefur verið ákærður fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni, þar á meðal morð, rán og þrælahald.

Kony stofnaði í Úganda árið 1987 „kristilegar skæruliðasveitir“ sem hann nefndi Andspyrnuher drottins. Sveitirnar hafa farið um með ofbeldi og ránum í Úganda og nágrannaríkjunum, meðal annars rænt þúsundum barna og þvingað þau til kynlífsþrælkunar og þátttöku í hernaði.

Dómstóllinn í Haag ákærði fimm yfirmenn í ógnarsveitum Konys árið 2005. Sá fyrsti þeirra sem náðist er Ongwen. Þrír eru látnir, en sá eini sem enn gengur laus er höfuðpaurinn Joseph Kony.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×