Fótbolti

Segir að landsliðsferli Rooney sé ekki lokið

Gareth Soutgate, þjálfari enska landsliðsins, segir að þrátt fyrir að hafa ekki valið Wayne Rooney í hóp enska landsliðsins fyrir leiki gegn Þýskalandi og Litháen í þessu landsleikjahléi þá eigi Rooney enn möguleika á sæti í liðinu.

Hinn 31 árs gamli Rooney sem er fyrirliði enska landsliðsins og markahæsti leikmaðurinn í ensku landsliðstreyjunni hefur lítið fengið að spila með félagsliði sínu að undanförnu en það hefur leitt til spurninga um framtíð hans með enska landsliðinu.

Þrátt fyrir það segir Southgate að hann eigi von á að Rooney sem hefur leikið 119 landsleiki fyrir Englands hönd muni snúa aftur í landsliðshópinn en hann er sex leikjum á eftir hinum goðsagnarkennda Peter Shilton sem á leikjamet enska landsliðsins.

Fóru enskir blaðamenn meðal annars að nefna það hvort það væri ekki réttast að þakka Rooney með kveðjuleik á Wembley líkt og Lukas Podolski fékk með þýska landsliðinu í síðustu viku í 1-0 sigri á Englandi.

„Hann kemur enn til greina í landsliðið, mér þykir full snemmt að tala um að kveðja hann með heiðursleik eins og Podolski fékk þegar hann á enn góðan möguleika á sæti í liðinu. Það er vitleysa að álykta að ferli hans sé lokið með landsliðinu,“ sagði Southgate.

Rooney hefur þó sjálfur gefið það út að hann muni leggja landsliðsskónna endanlega á hilluna eftir HM í Rússlandi 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×