Enski boltinn

Scholes: Liverpool getur unnið deildina

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jürgen Klopp fer vel af stað með sína menn.
Jürgen Klopp fer vel af stað með sína menn. vísir/getty
Paul Scholes, fyrrverandi leikmaður Manchester United, telur að Liverpool sé með lið sem getur unnið ensku úrvalsdeildina sem hann vann sjálfur ellefu sinnum á glæstum ferli.

Liverpool byrjar vel á leiktíðinni undir stjórn Jürgen Klopp en liðið er með þrettán stig eftir sex leiki og er í fjórða sæti. Það er búið að vinna Chelsea og Arsenal í Lundúnum og ná í stig á White Hart Lane, en í síðustu umferð pakkaði það Hull saman, 5-1.

„Liverpool lítur út fyrir að vera lið sem getur unnið deildina,“ sagði Scholes á BT Sport þar sem hann starfar sem sparkspekingur um úrvalsdeildina og Meistaradeildina.

Manchester United mætir á Anfield 17. október sem verður erfiður leikur fyrir hans gömlu félaga. „Það verður mikil áskorun fyrir United að fara þangað og fá eitthvað út úr leiknum,“ sagði Scholes.

„Ég held að United væri ánægt með jafntefli eins og liðin eru að spila núna,“ bætti Scholes við sem er mjög hrifinn af sóknarleik Liverpool-liðsins.

„Ég hafði smá áhyggjur af varnarleiknum en það verður að segjast að sóknarleikurinn er svo góður þessa dagana að liðið er alltaf líklegt til að skora á móti hvaða liði sem er,“ sagði Paul Scholes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×