Fótbolti

Sáum enga ástæðu til breytinga

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Lars á blaðamannafundinum í gær.
Lars á blaðamannafundinum í gær. vísir/ernir
„Við eigum tvo erfiða leiki fyrir höndum, getum lítið æft og sáum í raun enga ástæðu til að breyta núna,“ segir Lars Lagerbäck, annar landsliðsþjálfara Íslands, en hann og Heimir Hallgrímsson völdu nákvæmlega sama landsliðshóp og síðast.

Þann 3. september á liðið leik gegn Hollandi ytra í undankeppni EM og þrem dögum síðar mun Ísland taka á móti Kasakstan á Laugardalsvelli. Strákarnir eru í efsta sæti síns riðils og margir Íslendingar eru farnir að sjá EM í hillingum.

„Ég skil vel að fólkið hafi væntingar. Ég kynntist því líka í Svíþjóð. Við í liðinu eigum ekki að hugsa um það. Við eigum aðeins að hugsa um okkur og okkar undirbúning fyrir hvern leik. Andlegi þátturinn skiptir gríðarlegu máli. Það er undir okkur komið hvort við vinnum leiki.“

Svíinn segir að það verði ekki breytt út af neinu í undirbúningnum. Hann og Heimir munu halda áfram að heilaþvo leikmenn sína.

„Það er ákveðinn heilaþvottur í gangi hjá okkur því við erum mikið að tala um sömu hlutina. Við verðum að sjá til þess að allir þekki sitt hlutverk og við náum ákveðnu frumkvæði með því að hafa allt okkar á hreinu,“ segir Lars en hefur hann aldrei áhyggjur af því að leikmenn verði þreyttir á heilaþvottinum?

„Ég vona ekki. Ef maður myndi spyrja þá og þeir myndu svara heiðarlega þá myndu eflaust einhverjir segja að þeir hefðu fengið nóg. Ég hef aftur á móti lært að ef maður hættir að endurtaka hlutina þá er auðvelt að falla niður um nokkur prósent. Það er í fínu lagi mín vegna ef leikmenn eru búnir að fá nóg af mér svo lengi sem við spilum vel og vinnum leiki,“ segir Svíinn geðþekki og glottir við tönn.


Tengdar fréttir

Engar breytingar á landsliðshópnum

Landsliðsþjálfararnir Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson tilkynntu í dag hóp sinn fyrir leikina gegn Hollandi og Kasakstan í undankeppni EM. Þeir völdu sama hóp og síðast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×