Innlent

Sannkölluð stórhríð framundan: Búast má við samgöngu-og rafmagnstruflunum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Spáð er afar slæmu veðri fyrir norðan og austan á morgun og á föstudag.
Spáð er afar slæmu veðri fyrir norðan og austan á morgun og á föstudag. Vísir/Pjetur
Veðurspáin á morgun, fimmtudag, og á föstudag á Norður-og Austurlandi hljóðar upp á sannkallaða stórhríð, eins og það er orðað í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands, og má búast við tilheyrandi samgöngu-og rafmagnstruflunum í veðrinu.

Veturinn er því án efa genginn í garð þar sem köld norðanátt verður á landinu næstu daga með tilheyrandi snjókomu og skafrenningi fyrir norðan en bjartviðri sunnan heiða.  Segir á vef Veðurstofunnar að veðrið muni að öllum líkindum ekki ganga niður fyrr en á sunnudag og mánudag og ætti þá einnig að birta til í flestum landshlutum.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Vestan 10-15 metrar á sekúndu og él sunnan- og vestan lands, en hægari suðvestanátt og léttskýjað norðaustanlands. Vaxandi norðanátt með éljagangi fyrir norðan í dag, en léttir til syðra.

Norðan 15-23 og talsverð snjókoma á norðanverðu landinu í kvöld, en mun hægari og bjartviðri syðra. Hiti kringum frostmark.

Norðan og norðvestan 18-23 metrar á sekúndu og talsverð snjókoma eða skafrenningur norðan og austan til á morgun, hvassast á annesjum, en annars bjart með köflum. Frost víða 0 til 5 stig, en frostlaust austast.

Á föstudag og laugardag:

Ákveðin norðanátt með éljagangi, en heldur hægara og bjartviði sunnan- og vestan lands. Frost víða 0 til 5 stig, en sums staðar frostlaust við sjóinn.

Á sunnudag:

Norðlæg átt og él norðan og austan lands, en annars léttskýjað og svalt í veðri.

Á mánudag:

Yfirleitt hægviðri og léttskýjað, en norðanátt og dálíti él norðaustan til. Kólnar í veðri.

Á þriðjudag:

Útlit fyrir sunnanátt með slyddu eða rigningu og hlýnandi veður, en þurrviðri norðaustan til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×