Innlent

Samsung auglýsingin kærð - sögð vega að samkeppnisaðila

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Umdeild auglýsing. Skjáskot.
Umdeild auglýsing. Skjáskot.
Kæra hefur borist Neytendastofu vegna Samsung-auglýsingar fyrirtækisins Tæknivara.

Kærandinn er Skakkiturn ehf., fyrirtæki sem flytur inn og selur vörur frá bandaríska fyrirtækinu Apple [ísl. epli], og er þess krafist að bann verði lagt við birtingu auglýsingarinnar á grundvelli þess meðal annars að hún brjóti gegn reglum um samanburð í auglýsingum.

Páll Rúnar M. Kristjánsson
„Á Íslandi eru samanburðarauglýsingar almennt bannaðar nema að uppfylltum mjög ströngum skilyrðum. Það er fortakslaust bann lagt við því að vegið sé að samkeppnisaðila með því að kasta rýrð á vöru hans eða sýna henni lítilsvirðingu,“ segir Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður kæranda, og annar eigandi Málflutningsstofu Reykjavíkur.

Auglýsingin, sem ber heitið „Fáðu þér síma sem skilur þig“, hefur vakið heimsathygli. Var meðal annars fjallað um hana á Vísi fyrr í vikunni.

Umdeild auglýsing „Eplinu er haldið í lófa líkt og snjallsíma og gefnar skipanir sem eru dæmigerðar fyrir notkun þeirra. Að því loknu er eplinu haldið við eyra líkt og síma en af viðbrögðum notandans að dæma virkar eplið ekki sem skyldi,“ segir í kærunni en eftir að aðalpersónan í auglýsingunni kemst yfir Samsung Galaxy-síma tekur hún gleði sína á ný.

„Þrátt fyrir að auglýsingin sé sett fram á nokkuð óhlutbundinn hátt er hún rík af myndmáli,“ segir í kærunni. Er þar vísað í tvö atriði, annars vegar sjálft eplið, sem kærandi segir augljóst að eigi við vörumerki fyrirtækisins Apple og snjallsímann iPhone frá Apple, og hins vegar í birtingarmynd íslensku sauðkindarinnar í auglýsingunni. „Sauðkindin táknar notanda Apple iPhone. Hann fylgir hjörðinni en tekur ekki þátt í gleðinni sem fylgir notkun á vöru kærða,“ er útskýrt í kærunni.

Páll Rúnar segir að í auglýsingunni sé vegið að umbjóðanda hans með ólögmætum hætti. „Það má sjá af ummælum á samskiptamiðlum að mörgum sárnar þetta myndmál og skilaboð auglýsingarinnar.“

Hann segir niðurstöðu Neytendastofu fyrirsjáanlega en leggur áherslu á að málshraðinn sé hinn eiginlegi prófsteinn á réttlæti málsins. „Það var því mjög ánægjulegt að sjá snör og fagleg viðbrögð Neytendastofu við kærunni. Alvarleiki málsins endurspeglast vel í því hversu hratt stofnunin hefur brugðist við og hversu knappir allir frestir eru,“ segir hann og leggur áherslu á að auglýsingin hafi tjón í för með sér fyrir umbjóðanda hans sem ágerist með hverjum deginum.

Sveinn Tryggvason
Sveinn Tryggvason, framkvæmdastjóri Tæknivara, sagðist ekki kannast við kæruna. Hann tók engu að síður fram að sér þætti langsótt að kæra auglýsinguna. „Þetta fjallar ekkert um okkar samkeppnisaðila heldur bara okkar vöru. Einhverjir hafa lesið í það myndmál að það séu ávextir í túnfætinum hjá dönsurunum og sauðfénu en það er óþarfa tilfinningasemi ef menn láta sér þetta koma til hugar. Menn hafa ekki mikla kímnigáfu ef þeir láta sér detta í hug að kæra svona.“

Ákvörðun í málinu mun að öllum líkindum liggja fyrir um mánaðamótin.

Auglýsinguna má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×