Innlent

Samstaða á Patreksfirði: "Við munum ekki breyta um nafn"

Boði Logason skrifar
Haukur Már Sigurðsson, er formaður Samstöðu á Patreksfirði. Hann ætlar ekki að gefa eftir og skipta um nafn. Lilja Mósesdóttir kynnti í dag nafn á nýjum stjórnmálaflokki. Hann heitir líka Samstaða.
Haukur Már Sigurðsson, er formaður Samstöðu á Patreksfirði. Hann ætlar ekki að gefa eftir og skipta um nafn. Lilja Mósesdóttir kynnti í dag nafn á nýjum stjórnmálaflokki. Hann heitir líka Samstaða. Samsett mynd/Vísir
„Það kemur svolítið á óvart að hún skuli velja akkúrat þetta nafn án þess að hafa samband við okkur. Ég fékk bara tölvupóst áðan frá félaga mínum sem sagði mér frá þessu," segir Haukur Már Sigurðsson, formaður Samstöðu á Patreksfirði.

Lilja Mósesdóttir kynnti í dag nafn á nýjum stjórnmálaflokki sem hún var að stofna. Flokkurinn fékk nafnið Samstaða, eins og fram hefur komið í fréttum í dag. Það vill svo til að stjórnmálasamtök með þessu nafni eru til. En þau eru á Patreksfirði.

Haukur Már er formaður Samstöðu á Patreksfirði en samtökin voru stofnuð fyrir fjórtán árum síðan, árið 1998, og hafa boðið fram í sveitastjórnarkosningum síðan þá. „Við vorum í meirihluta í bæjarstjórn síðast og erum með þrjá bæjarfulltrúa af sjö núna," segir hann.

„Ég er svolítið hissa að þau skuli velja þetta nafn án þess að hafa samband. Við erum ekkert tengd þessum stjórnmálaflokki," segir hann. Næstu skref segir hann vera óljós en hann ætlar að hafa samband við Lilju og ræða málið.

Og það kemur ekki til greina að Haukur Már og félagar breyti um nafn. „Við munum ekki breyta um nafn, þetta er okkar nafn. Við erum með ákveðið lógó og allt. Þetta er orðið 14 ára gamalt og við munum ekkert gefa eftir í þeim efnum," segir hann að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×