Innlent

Samningur um aðgerðir hafnríkja til að sporna gegn ólöglegum veiðum fullgiltur

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
vísir/óskar friðriksson
Ísland hefur fullgilt alþjóðasamning FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, frá 2009 um hafnríkisaðgerðir til að fyrirbyggja, hindra og uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Sem stendur hafa 13 ríki fullgilt samninginn en 25 ríki þurfa að fullgilda hann svo að hann öðlist gildi. Fiskimáladeild FAO hefur lagt ríka áherslu á að sem flest ríki gerist aðilar að samningnum og fullgildi hann.

Samningurinn um hafnríkisaðgerðir er fyrsti bindandi alþjóðasamningur á sviði fiskveiða síðan svonefndur úthafsveiðsamningur um verndun deilistofna og víðförulla fiskstofna og stjórn veiða úr þeim var samþykktur árið 1995. Samningurinn um hafnríkisaðgerðir er nátengdur efni úthafsveiðisamningsins, en í 23. gr. þess samnings er ríkjum fengin heimild og lögð á þau skylda til að beita hafnríkisreglum í lögsögu sinni til að stuðla að virkni alþjóðlegrar verndunar og stjórnarráðstafana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×