Viðskipti innlent

Samningar um kísilver í undirritaðir í dag

Helguvík.
Helguvík.

Samningar hafa náðst um smíði kísilvers í Helguvík og verður skrifað undir þá í Reykjanesbæ klukkan eitt. Framkvæmdir hefjast í vor.

Stefnt hafði verið að því að klára samningana fyrir síðustu mánaðamót, eins og fréttastofan hefur áður skýrt frá, en ýmis atriði urðu til að frágangur tafðist á lokasprettinum. Það var svo ekki fyrr en í morgun sem endanlega varð ljóst að allt væri klárt og er nú ákveðið að haldin verði sérstök undirskriftarathöfn í Duus-húsi í Keflavík klukkan eitt.

Þar verða undirritaðir fjárfestingarsamningar milli Íslenska kísilfélagsins ehf, stjórnvalda og Reykjanesbæjar. Þá verður greint frá samningum Kísilfélagsins við HS Orku og Landsvirkjun, Landsnet og Reykjaneshöfn. Einnig verður kynntur til sögu nýr aðaleigandi í Íslenska kísilfélaginu ehf, en það er bandarískt fyrirtæki í kísiliðnaði.

Á fundinum verða m.a. iðnaðarráðherra, fjármálaráðherra, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, fulltrúar Íslenska kísilfélagsins, Landsnets, Reykjaneshafnar, HS Orku, Landsvirkjunar og fjárfestingararsviðs Íslandsstofu.

Undirritun þýðir að framkvæmdir hefjast í Helguvík í maímánuði, sem kalla á ráðningu 150 starfsmanna næstu tvö ár. Síðan verða til 90 framtíðarstörf en framleiðslan hefst sumarið 2013. Tveir ofnar verða í verksmiðjunni, sem framleiða mun um 50 þúsund tonn af hrákísil á ári.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×