Skoðun

Samfélag fyrir alla?

Árný Guðmundsdóttir skrifar
Heyrnarlausir (döff) nýta sér þjónustu táknmálstúlka við ýmis tækifæri í daglegu lífi í samskiptum við þá sem tala ekki táknmál. Til þess að greiða fyrir þessa þjónustu hafa verið lagðir fram fjármunir árlega frá árinu 2004 en margoft hefur fjármagnið klárast seinni hluta árs – sú er einmitt staðan í dag. Fjármagn til túlkunar í daglegu lífi er nú upp urið og enn eru 2 ½ mánuður eftir af árinu. Menntamálaráðherra segir að Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, sem veitir túlkaþjónustu, eigi að forgangsraða fjármununum betur.

Lesandi góður, myndir þú vilja láta stofnun úti í bæ forgangsraða hvort þú tækir þátt í eftirfarandi atburðum, og að hvaða marki: kaupa/selja húsnæði, kaupa/selja bíl, húsfundur í fjölbýli, starfstengt námskeið sem veitir launahækkun, starfsþróunarnámskeið, öryggisnámskeið í tengslum við atvinnu, starfsmannafundir, jólahlaðborð, áttræðisafmæli ömmu þinnar, fermingarveisla bróður þíns, eigin brúðkaupsveisla, fundur hjá foreldrafélagi, fræðsla á vegum foreldrafélags, íþróttaiðkun, spákona í saumaklúbbinn, föndurnámskeið fyrir jólin, atvinnuviðtal, í kjólinn fyrir jólin, ráðgjöf hjá sjálfstæðum fjölskylduráðgjafa, árshátíð á vinnustað og svo mætti lengi telja. Ef þér væri, til að gæta jafnræðis, úthlutað 9 túlkuðum klukkutímum á ári – myndir þú sætta þig við að þurfa að velja á milli?

Döff vilja vera fullgildir þátttakendur í samfélaginu, stunda sína vinnu, borga sína skatta og vilja sinna sínum fjölskyldum og heimilum á sama hátt og aðrir. Til þess að það gangi þarf túlkaþjónusta að vera endurgjaldslaus og í boði – alltaf, við öll tækifæri. Gera þarf táknmálstalandi borgurum kleift að taka þátt í því sem daglegt líf krefst af okkur öllum.

Myndir þú vilja taka þátt í samfélaginu 9 ½ mánuði á ári en sitja með hendur í skauti seinustu 2 ½ mánuðina og bíða eftir að nýtt ár gengi í garð með nýrri fjárveitingu? Fá þá að vita í hverju af ofantöldu þú gætir tekið þátt?




Skoðun

Sjá meira


×