Innlent

Saknar alltaf strumpapáskaeggjanna

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Síðasti dagur páskaeggjaframleiðslunnar hjá sælgætisverksmiðjum landsins var í gær en salan hefur gengið vel í ár. Rúnar Ingibjartsson hefur starfað hjá Nóa Siríus í 34 ár en hann segir innihald og skreytingar páskaeggjanna hafa breyst mikið þó að súkkulaðið sé alltaf það sama. 



„Ég sakna má segja Strumpanna. Þeir voru gríðarlega skemmtilegir og lífguðu uppá. Þeir voru margvíslegir í allskonar hlutverkum, fótboltastrumpar, námumenn og hitt og þetta og þetta og hitt. Þannig að við sáum svolítið eftir þeim þegar þeir hurfu“, segir Rúnar, en ástæða þess er að ekki náðust áframhaldandi samningar við umboðsaðila Strumpanna á Íslandi á sínum tíma.

Nói Siríus framleiðir rúmlega 330 þúsund  páskaegg ár hvert, eða eitt egg á hvern Íslending. Rúnar segir að þó að eggin verði sífellt fjölbreyttari og stærri skipti málshátturinn alltaf mestu máli. 

„Ef að hann vantar, sem að sem betur fer er mjög sjaldgæft, þá er eðlilega mikil sorg og við fáum alveg að heyra það,“ segir Rúnar sem er nú farinn í páskafrí eftir vinnutörnina. 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×