Innlent

Sakborningar í Aurum-málinu neituðu sök

Allir sakborningarnir í Aurum-málinu svokallaða neituðu sök við þingfestingu þess í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Þá lögðu verjendur sakborninga fram sameiginlega bókun þar sem gagnaframlagningu Sérstaks saksóknara er mótmælt. Þá fór Lárus Welding fram á frestun málsins þar sem hann er til rannsóknar í fjölmörgum málum. Hann telur sig eiga rétt á að þau mál verði sameinuð í eitt komi til ákæru í þeim. Sérstakt þinghald vegna þessa fer fram þann 16. janúar næstkomandi.

Þeir Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, Jón Ásgeir Jóhannesson, sem var aðaleigandi bankans, Magnús Arnar Arngrímsson og Bjarni Jóhannesson, fyrrverandi starfsmenn bankans, eru ákærðir fyrir umboðssvik vegna sex milljarða króna láns sem Glitnir veitti félaginu FS38 til kaupa á hlut Fons, sem var félag Pálma Haraldssonar, í Aurum Holding, sem rekur vinsælar skartgripaverslanir. FS38 fór í þrot án þess að nokkuð hafi fengist upp í kröfuna. Í ákæru sérstaks saksóknara kemur fram að af þessu sex milljarða króna láni hafi einn milljarður á endanum runnið í vasa Jóns Ásgeirs og annar í vasa Pálma.

Rétt er að taka fram að Aurum Holding, sem kemur fyrir í þessu sakamáli, tengist ekki versluninni Aurum í bankastræti.


Lárus Welding mætti líka fyrir dóminn. Mynd/ Valli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×