Innlent

Sakar SFS um hugleysi

Birgir Olgeirsson skrifar
Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður, segir það dæmi um hugleysi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi að vilja ekki mæta sér á fundi um sjávarútvegsmál.
Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður, segir það dæmi um hugleysi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi að vilja ekki mæta sér á fundi um sjávarútvegsmál. Vísir/Vilhelm/GVA
„Mér finnst þetta hugleysi af þeirra hálfu og til marks um að þeir vilja ráða og ríkja en þora ekki efnislega umræðu um málið,“ segir Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður og núverandi ritstjóri Vestfjarða vikublaðs, um þá ákvörðun Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) að vilja ekki mæta til fundar um sjávarútvegsmál vegna kröfu Pírata um að Kristinn yrði einn af frummælendum fundarins.

Karen Kjartansdóttir, upplýsingafulltrúi SFS, sagði í samtali við Vísi í gær að samtökin hefðu ekki áhuga á fundi með Kristni og töldu ólíklegt að nærvera Kristins myndi skila einhverju. Nefndi Karen sem dæmi orðfæri Kristins í því samhengi.

Sjá einnig:„Þeir lögðu til Kristin og við höfðum ekki áhuga á fundi með honum“

Telur forstjóra Samherja gera samtökunum lítið gagn

„Það er nú fátt um skýringar hjá henni þannig að það er ekki gott að svara því,“ segir Kristinn og bætir við:  „Mér finnst orðfæri ýmissa ráðamanna í sjávarútvegsfyrirtækjum vera þannig að LÍÚ mætti gjarnan sín vegna halda þeim til hlés. Þar á ég við menn eins og forstjóra Samherja sem ég held að geri samtökunum lítið gagn með orðfæri sínu.“

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi voru stofnuð 31. október síðastliðinn með sameiningu Landssambands íslenskra útvegsmanna(LÍÚ) og Samtaka fiskvinnslustöðva(SF) en SFS eru ein af sex aðildarsamtökum Samtaka atvinnulífsins.

Hefði viljað mæta SFS

Kristinn segist annars vel treysta sér í málefnalega umræðu við forsvarsmenn SFS um sjávarútveg. „Ég hefði gjarnan viljað það og treyst mér í það. Ég tel mig vera í stakk búinn til að ræða málefni og aðskilja það frá persónum.“

SFS hafði unnið að framhaldsfundi um sjávarútvegsmál ásamt Pírötum eftir að samtökin mættu ekki á fund Pírata í febrúar síðastliðnum líkt og auglýst hafði verið. Ástæðan sem samtökin gáfu fyrir fjarverunni var aðkomu Ólafs Jónssonar, sem kallar sig Óla ufsa, að fundinum og töldu samtökin það minnka líkurnar á málefnalegum umræðum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×