Erlent

Sakaður um að hafa barið sjö mánaða barn til bana

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Getty
Karlmaður í Bandaríkjunum hefur verið ákærður fyrir að hafa barið sjö mánaða stúlkubarn til bana í mars. Það á maðurinn að hafa gert eftir að komast að því að hann væri ekki líffræðilegur faðir stúlkunar. Áverkar á barninu voru umtalsverðir.

Fáeinum dögum áður en barnið lést hafði starfsfólk dagvistunar stúlkunar í Minneapolis tekið eftir áverkum á henni. Áverkunum fjölgaði á næstu dögum og var maðurinn spurður út í þá. Hann mun hafa sagt að barnið hefði fengið þá heima.

Samkvæmt Washington Post kom maðurinn ekki með barnið til vistunar degi seinna. Seinna þann dag hringdi hann í Neyðarlínuna og komu sjúkraflutningamenn að honum þar sem hann sat og talaði í símann, en stúlkan lá hreyfingarlaus á gólfinu. Hún var úrskurðuð látin tveimur tímum seinna.

Samkvæmt málsgögnum dó barnið kvalarfullum dauðdaga. Ellefu rifbein stúlkunnar voru brákuð. Hún var marin víðsvegar um líkamann og það blæddi úr lifur hennar. Talið er að hún hafi verið barin í magan margsinnis.

Faðernirspróf hafði verið framkvæmt þremur dögum áður en barnið lést.

Maðurinn á yfir höfði sér allt að 30 ár í fangelsi verði hann fundinn sekur um morð. Lögmaður hans heldur því þó fram að hann sé saklaus. Það að hann hafi verið með hana þegar hún dó sé ekki til marks um að hann hafi myrt hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×